133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[15:54]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem nú fer fram um launamun kynjanna sem orðið hefur í kjölfar könnunar um launamyndun og kynbundinn launamun sem gerð var fyrir félagsmálaráðuneytið.

Það er áfall fyrir jafnréttissinnað fólk að ekki hafi dregið úr launamun kynjanna. Góðu fréttirnar í þessari könnun eru þó að ákveðnar breytingar hafa orðið á síðustu tólf árum varðandi starfsumhverfi og starfshætti í fyrirtækjum. Þannig hefur vinnutími karla og kvenna styst, konum í fullu starfi hefur fjölgað og viðhorf þeirra til vinnunnar breyst. Þá er ljóst að launamunur kynjanna meðal stjórnenda hefur minnkað sem sýnir ákveðinn árangur. Aukin ábyrgð og menntun kvenna virðist skila sér í meira mæli í bættum kjörum en áður var.

Í fyrri könnun frá 1994 kom fram að fjölskylduábyrgð dró úr áhuga kvenna á ábyrgðarstörfum eða stöðuhækkunum en jók áhuga karla. Samkvæmt þessari könnun er þetta ekki lengur raunin og má ekki síst rekja þessa þróun til breytinga á fæðingarorlofslögunum sem hafa bætt stöðu kvenna á vinnumarkaði til muna. Á því má sjá að ákvarðanir stjórnvalda hafa áhrif í jafnréttismálum.

Þá má telja það jákvætt að opinberar stofnanir hafa staðið sig betur en fyrirtæki á almenna markaðnum í þessum efnum. Þar er launamunur kynjanna mun minni en á almenna markaðnum. Það segir okkur að barátta stéttarfélaga opinberra starfsmanna og eftirlit þeirra með launamyndun hjá hinu opinbera hafi, ásamt breyttum viðhorfum með ríkisrekstri, í einhverju skilað árangri þótt betur megi ef duga skal.

Vondu fréttirnar eru hins vegar að þessar breytingar hafa ekki orðið til þess að almennt hafi dregið úr launamun kynjanna. Þegar tekið hefur verið tillit til starfsstéttar, aldurs, starfsaldurs og vinnutíma er óútskýrður munur á launum karla og kvenna um 16%, nánast sá sami og var fyrir tólf árum. Sú staða er óviðunandi. Boltinn er nú ekki síst hjá fyrirtækjum á hinum almenna markaði. Þau þurfa að svara fyrir það hvers vegna þau meta framlag karla til fleiri aura en kvenna. Það dugir ekki lengur að skella skuldinni á konur að þær sæki ekki nægilega fram þegar laun eru annars vegar. Við þá skýringu má ekki sitja og því skora ég á stéttarfélög og atvinnurekendur að taka höndum saman og (Forseti hringir.) útrýma þessum kynbundna launamun sem er sorgleg staðreynd.