133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[15:59]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra segir að það ríki stöðnun í jafnlaunamálum. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra, hér hefur ríkt stöðnun mjög lengi.

Eins og fram hefur komið var það fest í lög árið 1961 að kynin skyldu hljóta sömu laun fyrir sömu störf og eins og fram hefur komið mun það taka á þessum hraða 581 ár að koma á jöfnum launum á milli karla og kvenna á Íslandi. Við höfum bara ekki svona mikinn tíma, hæstv. forseti.

Hvað ætlar hæstv. félagsmálaráðherra að gera? Hann er enn þá að velta fyrir sér lykilhugtökum í lögum um jafnrétti kynjanna, hugtökum eins og jákvæðri mismunun, sem oftast er kölluð forgangsreglan. Hann þarf ekki annað en að hringja eitt símtal í Háskóla Íslands til að fá svar við því hvað það þýðir og hvernig það virkar í íslenskum lögum og hvernig það á að nota samkvæmt íslenskum lögum.

Annað sem ráðherra þyrfti að kynna sér betur er hvernig maður kemur á launaleynd. Fyrir liggja skýrar tillögur um lögvarinn rétt launþega til þess að greina þriðja aðila frá launum sínum. Launaleynd verður ekki komið á með öðrum hætti, hæstv. forseti. Það liggur algjörlega fyrir og þarf ekkert að velta lengur fyrir sér í ráðuneyti félagsmála hvernig það beri að gera.

Í þriðja lagi þarf að endurbæta jafnréttislögin með þeim hætti að raunveruleg viðurlög séu við því að brjóta þau skv. 22. gr. laganna, að menn finni fyrir því í fyrirtækjum landsins, hvort sem það eru opinberar stofnanir eða einkafyrirtæki, þegar þeir brjóta lög á þessu sviði eins og öðrum. Öðruvísi mun það taka okkur 581 ár að ná hér jöfnum launum kynjanna, hæstv. forseti.