133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[16:05]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Niðurstaða rannsóknarinnar á vegum félagsmálaráðuneytis var ákveðið áfall fyrir alla þá sem vilja jafnrétti kynjanna. Hún náði reyndar bara til átta fyrirtækja en gefur örugglega rétta mynd af því sem er að gerast á markaðnum almennt og er reyndar staðfest í skattframtölum. En hún tekur einungis til sömu starfa í fyrirtækjunum. Hún tekur ekki til þess, sem ég held að skipti miklu meira máli, framgangsins. Hversu margar konur eru verkstjórar, forstjórar og í stjórnum fyrirtækja? Það vantar alveg inn í þetta. Munurinn er meiri en 16%. Hann er töluvert meiri.

Þetta misrétti veldur óréttlæti. Þetta misrétti veldur því að fólk er svekkt, vonlaust og missir metnað innan fyrirtækjanna. Það er mjög skaðlegt. Þjóðin nýtir ekki þann mannafla sem býr í konum. Þetta gefur þjóðinni í heild sinni minni arðsemi. Þó að fæðingarorlofið sýnist hafa bætt stöðuna eitthvað dugar það ekki til. Ég hélt að það mundi bæta stöðuna meira.

En þetta er ekki að mínu mati vandi löggjafans. Við erum búin að gera allt til að jafna stöðuna gagnvart lögum. Vandinn er hjá þeim sem ákveður launin, launagreiðandanum, og launþeganum sjálfum. Vandinn er líka hjá honum. Vandinn eru fordómar gagnvart konum, bæði hjá karlmönnum og konum. Ég hvet allar konur til þess að krefjast hærri launa, eins og karlmenn gera. (ÁI: Þær hafa gert það, Pétur.) Þær eiga að gera enn meira af því, eins og karlmenn hafa gert. (Gripið fram í.) Þær eiga að vera vissar um að þær geti orðið forstjórar, verkstjórar, stjórnarformenn og farið í stjórnir fyrirtækja. Nákvæmlega eins og karlmenn telja sig hafa hæfileika til.