133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[16:07]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það væri ósanngjarnt að segja annað en að það hafi örlað á vilja hjá hæstv. ráðherra til að taka á þessum málum. Ýmislegt sem hæstv. ráðherra nefndi gefur nú vonir um að ráðherra ætli að fylgja þessu eftir. Það er kannski ástæða til að gefa ráðherranum þá tækifæri til þess á næstu vikum að hrinda því í framkvæmd sem hæstv. ráðherra nefnir hér.

Hann er fylgjandi róttækum aðgerðum. En hvaða aðgerðum? Hann vill skoða með opnum huga jákvæða mismunun. Hæstv. ráðherra vill skoða með opnum huga að afnema launaleyndina. En hæstv. ráðherra verður að sýna í verki að hann sé tilbúinn til þess.

Ég fagna því auðvitað að hæstv. ráðherra hefur sett af stað þessa framkvæmdaáætlun um aðgerðir til að ná fram launajafnrétti sem var samþykkt hér á Alþingi. En ég spyr: Hvenær megum við vænta þess að þessari framkvæmdaáætlun verði hrint af stað? Það er það sem skiptir máli og ég spyr hæstv. ráðherra um það.

En það er alveg ljóst að ráðherrarnir sjálfir verða að hreinsa til heima hjá sér og sópa ekki öllu undir teppi. Málið er það að launamisrétti viðgengst hjá hinu opinbera. Ég fór inn á það áðan að viðbótarlaun sem eru háð geðþóttaákvörðun forstöðumanna renna í miklu meira mæli til karla en kvenna. Ég skora á hæstv. ráðherra að ræða nú við hæstv. fjármálaráðherra um að settar verði samræmdar reglur um þessar viðbótarlaunagreiðslur. Það hafði ekki verið gert síðast þegar ég vissi.

Hér er oft nefnt fæðingarorlofið. En það er vitað að ríkisstjórnin er á góðri leið með að eyðileggja fæðingarorlofslögin með því að lengja viðmiðunartímann sem útreikningar til fæðingarorlofs byggja á. Ég skora á hæstv. ráðherra að laga það.

Það er alveg ljóst líka að konur í stjórnunarstöðum eru einungis 5% hjá 50 stærstu fyrirtækjunum á hlutabréfamarkaði og sama hlutfall er hjá lífeyrissjóðunum. Því þarf að breyta, og það með lögum ef með þarf. Við skulum muna að það er ekki bara hagsmunamál kvenna. Það er líka hagsmunamál karla að við náum fram jafnrétti kynjanna (Forseti hringir.) og það er leiðin til þess að jafna fjölskylduábyrgð líka. Það er allra hagur að þetta sé gert og ég skora á ráðherrann að bretta nú upp ermarnar.