133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

niðurstöður nýrrar könnunar um launamun kynjanna.

[16:10]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Magnús Stefánsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu og vil byrja á því að taka undir niðurlag ræðu síðasta hv. þingmanns um að við þurfum að sjálfsögðu að bretta upp ermar og taka á þessum málum. Hvort ég er harður eða linur er út af fyrir sig kannski ekki stóra málið. Aðalmálið er að við náum árangri.

Ég skil vel að hv. þingmönnum sem hér hafa talað sé mikið niðri fyrir. Það er mér einnig. Út af fyrir sig er allt í lagi að hv. þingmenn skammi mig fyrir þetta, ef það léttir eitthvað á er það bara í góðu lagi. (Gripið fram í.) Ég fagna því að geta komið til hjálpar öllum sem líður illa.

Í þessari umræðu hafa komið fram ýmsar ábendingar. Hér hefur verið bent á tillögur o.s.frv. Að sjálfsögðu er eðlilegt að skoða það allt saman. Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir bauð mér upp á vagninn með Vinstri grænum. Við skulum bara ræða það síðar hvort af því verður. Engu að síður er auðvitað margt sem hefur komið fram hér í þessari umræðu.

Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan. Ég hyggst kalla til samstarfs aðila sem að þessum málum koma. Það eru aðilar vinnumarkaðarins og ýmsir aðilar sem hafa unnið að þessum málum og ég veit að hafa náð árangri. Að sjálfsögðu eigum við að leita til þeirrar reynslu sem þar liggur, og þeirrar þekkingar. Mér finnst það einboðið og það munum við gera.

En ég vil líka rifja hér upp, af því að rætt hefur verið um launamálin hjá ráðuneytunum, að hjá félagsmálaráðuneytinu var farið sérstaklega yfir þessi mál fyrir einhverju síðan. Ég tel að sú vinna geti verið og eigi að vera góð fyrirmynd fyrir önnur ráðuneyti og aðrar opinberar stofnanir. Við getum auðvitað lagt ýmislegt til í þessu.

Þetta er samfélagslegt mál, þetta er mannréttindamál og við eigum auðvitað öll að taka á í þessu. Ekki skal standa á mér að reyna að virkja þann kraft sem í samfélaginu býr til að ná meiri árangri í þessu máli. Það er einfaldlega það sem við verðum að gera. Auðvitað eiga ekki að líða 500 ár eða meira, eins og hér hefur komið fram. Það er alveg út í hött. Helst vildi ég að við næðum þessu á fimm árum.