133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

teikning af legu raflínu frá Skagafirði til Húsavíkur.

235. mál
[18:03]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Fyrirspyrjandi, hv. þingmaður hefur gert grein fyrir spurningu sinni.

Því er til að svara að lauslegir uppdrættir eru fyrir hendi í gögnum sem ráðuneytinu hafa verið send.

Síðasta vetur vann iðnaðarráðuneytið í samvinnu við sveitarfélög í Skagafirði, Eyjafirði og Þingeyjarsýslu að staðarvalsathugunum fyrir hugsanlegt álver á vegum Alcoa. Til athugunar voru staðsetningar við Bakka við Húsavík, Dysnes í Eyjafirði, Brimnes í Skagafirði og auk þess Eyjarey í Húnavatnssýslu. Til hliðsjónar var haft að möguleikar á orkuöflun fyrir slík iðjuver eru til staðar í Skagafirði og Þingeyjarsýslu auk orku frá Blönduvirkjun sem hagstætt kynni að vera að nýta á vesturhluta svæðisins.

Staðarvalsathuganirnar beindust að allmörgum þáttum sem áhrif geta haft á innbyrðis val milli álíka góðra kosta. Hér er um að ræða atriði eins og athuganir á veðurfari, almennri jarðfræði, gróðri, dýralífi, líkum á jarðskjálftum og annars konar náttúruvá, menningarverðmætum, hafnarskilyrðum og kostnaði við hafnargerð. Hluti af slíku samanburðarmati á staðsetningu fyrir orkufrekan iðnað er augljóslega að meta hvar orkuöflun er möguleg og hvaða leiðir gætu hentað til að flytja orkuna frá framleiðslustað til notenda. Þessi vinna var ekki á hendi ráðuneytisins eða sveitarfélaganna heldur unnin af Alcoa í samstarfi við Landsnet og ráðgjafarfyrirtæki.

Staðarvalsvinna er algjör frumvinna og strikun hugsanlegra línuleiða á kort hefur aðeins þann tilgang að gera samanburð, kostnaðaráætlanir og meta sjónrænt vegalengdir og augljósar hindranir sem áhrif hafa á kostnað. Að baki þessu liggja engar rannsóknir eða könnun á línuleiðum. Þessar skematísku teikningar, byggðar á upplýsingum frá Landsneti, eru til í greinargerð sem Alcoa afhenti sem vinnugögn og var hluti af framlagi fyrirtækisins í staðarvalsvinnunni en hafa að öðru leyti enga aðra þýðingu. Teikningarnar eru með öðrum orðum, eins og áður segir, til í skjali í ráðuneytinu.