133. löggjafarþing — 23. fundur,  8. nóv. 2006.

eldfjallagarður á Reykjanesi.

198. mál
[18:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Þá liggur það fyrir. Hæstv. umhverfisráðherra hefur ekki tekið afstöðu til þessa máls, kannski fyrst og fremst vegna þess að hugmyndir Landverndar hafa ekki verið formlega kynntar ráðuneytinu. Ég hugsa að það sé nú hægt að vinda bráðan bug að því og Landvernd getur örugglega lagt leið sína í ráðuneytið og fengið fund með hæstv. ráðherra og ráðuneyti hennar og kynnt tillögurnar formlega.

En mér er fullkunnugt um það, og hæstv. ráðherra líka, að þar sem umhverfisráðuneytið átti fulltrúa á málþinginu 7. september, þá er ráðuneytinu vel kunnugt um í hverju þessar hugmyndir felast, enda eru þær líka afar vel kynntar á heimasíðu Landverndar.

Í öðru lagi kemur í ljós í máli hæstv. ráðherra að í grunninn falli hugmyndir Landverndar vel að náttúruverndaráætlun Umhverfisstofnunar, þ.e. þeim hugmyndum sem lagðar voru fram af Umhverfisstofnun. 75 svæði, þar af voru sex svæði á Reykjanesskaga og þrjú sem eru í nágrenni, og hæstv. ráðherra segir að í grunninn falli þessar hugmyndir Landverndar vel að náttúruverndaráætluninni sem liggur að baki þeirri áætlun sem samþykkt var á Alþingi. Mér finnst það ágætt. Mér finnst það gott. Ég er sammála því að þetta geti farið vel saman.

En svo kemur rúsínan í pylsuendanum í svari hæstv. ráðherra. Þar er ég ekki allskostar ánægð þegar hæstv. ráðherra upphefur Vatnajökulsþjóðgarð á þeim nótum að það mætti skilja á mæli hennar að nú nægi bara alveg að búa til þjóðgarð elds og ísa við Vatnajökul og þá geti orkufyrirtækin fengið að eiga Reykjanesskagann.

Ég vona að hæstv. ráðherra heimili mér ekki að lesa svona í orð sín og svari skýrar til í seinni ræðu sinni.