133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

ástandið í Palestínu.

[10:40]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Við hljótum að fordæma slíkar árásir sem hér hafa átt sér stað og fregnir berast nú af. Það getur ekkert réttlætt það að skjóta á íbúðarblokkir að næturlagi og fella þar óbreytta borgara í fastasvefni, því hljótum við að mótmæla harðlega. Það er vandséð hvaða tilgangi slíkar aðgerðir þjóna en afleiðingarnar eru ekki vandséðar. Slíkar aðgerðir hljóta að verða til þess að sá gordíonshnútur sem er í samskiptum Ísraels og Palestínu verður enn óleysanlegri.

Sú deila sem þarna er uppi á sér dýpri og tilfinningaþrungnari rætur en flestar aðrar deilur sem uppi eru í veröldinni og þá er af nógu að taka. Það hefur verið úthellt blóði tveggja deiluaðila en það breytir engu um þá fordæmingu á þessum verknaði. Það er fyrirhugað að utanríkisráðherra hitti sendiherra Ísraels í næstu viku og mótmæli þessu athæfi harðlega og formlega og það er vissulega afstaða okkar að standa bak við þau mótmæli af heilum hug. Það er ekki erfitt að ímynda sér hvaða afleiðingar árásir eins og sú sem hér var gerð hafa. Hún eykur á vonleysið, vonleysið eykur á hatrið og þetta verður endalaus vítahringur eins og hefur reyndar verið síðustu áratugina eða frá því að ég man eftir mér.