133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

ástandið í Palestínu.

[10:45]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir þá tillögu sem hér hefur komið fram í máli hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar að mótmælum verði þegar komið á framfæri við Ísraelsstjórn. Ég legg til að einnig verði farið til sendiherra Bandaríkjanna hér á landi og mótmælt stuðningi Bandaríkjanna við Ísraelsstjórn sem hefur verið og er alveg stöðugur. Það er alveg ljóst að Ísraelsmenn kæmust ekki upp með það framferði sem þeir hafa stundað í Ísrael nema með dyggum stuðningi Bandaríkjamanna. Í þeirra skjóli eru þeir þarna og þegar við horfum á það ástand sem er núna í Miðausturlöndum liggja ræturnar að þeim óróa, þeim hryðjuverkum og því ástandi sem heimurinn er að bregðast við núna í Ísrael, ræturnar liggja í yfirgangi Ísraelsmanna gegn Palestínumönnum og þeim múr sem Ísraelsmenn eru núna að reisa kringum ríki sitt, múr sem er langt umfram þau landamæri sem alþjóðasamfélagið hefur sæst á, og eru núna að innlima lönd Palestínumanna og Jerúsalemsborg sem þeir ætla sér sem framtíðarhöfuðborg Ísraels. Það hefur verið markmið þeirra alla tíð og þeir hætta ekki fyrr en þeir koma Jerúsalem inn fyrir landamæri sín.

Múrinn á að fordæma og það á að gera héðan frá hv. Alþingi. Hv. Alþingi á að gera (Forseti hringir.) það kröftuglega, og það verður að fylgja með því þar liggur rótin.