133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

skýrsla umboðsmanns Alþingis 2005.

[11:08]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2005. Það er afar mikill fengur að skýrslum umboðsmanns. Í hvert sinn sem þær koma fáum við umboðsmann Alþingis í heimsókn til allsherjarnefndar og hann gerir grein fyrir helstu álitaefnum eða helst málum sem á hans borði hafa verið það árið og það hefur verið ánægjulegt og gagnlegt að fá að fylgjast með skýrslum umboðsmanns undanfarin ár og fá aðeins að rýna í þróun þessara mála.

Nú er skemmst frá því að segja að það sem veldur áhyggjum í lestri eða við yfirferð skýrslunnar er það að þegar skipting skráðra mála eftir viðfangsefnum er skoðuð kemur í ljós að stærsti einstaki málaflokkurinn sem umboðsmaður Alþingis fær til meðferðar eru tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls. Ég held að ég fari með rétt mál þegar ég segi að þetta sé og hafi verið á undangengnum árum stærsti einstaki málaflokkurinn og þó að séu kannski einhverjar fækkanir á milli áranna 2004 og 2005 þá held ég að hér sé enn um að ræða ákveðin mál sem við alþingismenn þurfum að taka til ákveðinnar skoðunar því það er auðvitað í umboði okkar sem umboðsmaður Alþingis starfar, þ.e. hann starfar ekki undir neinu ráðuneyti heldur undir Alþingi Íslendinga og hann er málsvari fólksins í landinu eins og við í sjálfu sér erum með ákveðnum hætti sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar á löggjafarsamkundunni.

Ég tel því mjög mikilvægt að alþingismenn taki til rækilegrar skoðunar þá skýrslu sem við höfum til meðferðar og að við förum ofan í saumana á henni og ákveðum með sjálfum okkur, og það heyrir kannski fyrst og fremst undir allsherjarnefndina, með hvaða hætti við getum lagt lóð á vogarskálarnar, á hvern hátt við getum tryggt að t.d. stjórnvald, og tek ég sem dæmi af þessum málaflokki sem ég áður nefndi, verði ekki uppvíst að töfum á afgreiðslu mála með þeim hætti sem virðist vera orðin hálfgerð lenska eða vera lenska í stjórnsýslu okkar. Af þeim 314 málum sem umboðsmaður fjallaði um á síðasta ári eru 46 komin til vegna tafa hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls og ég verð að segja að það er allt of mikið, það er allt of stór hluti málanna sem þannig er til kominn.

Hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir nefndi á undan mér að fangelsismálin hefðu verið hluti af umfjöllunarefni umboðsmanns. Það er auðvitað afar ánægjulegt til þess að vita þegar skoðaður er mögulegur árangur af starfi umboðsmanns að þá sjáum við að það fækkar á milli áranna í flokknum fangelsismál. Málum þar á milli ára hefur fækkað um 10 og umboðsmaður tjáði okkur í allsherjarnefnd að hann byndi vonir við að þær breytingar héldu áfram og að þær mætti rekja til átaks sem gert hefur verið í málefnum fanga sem við sem störfum í allsherjarnefndinni vitum auðvitað að hefur verið í gangi. Við höfum sjálf lagt lóð á vogarskálarnar í þeim efnum varðandi nýja og breytta löggjöf sem að mínu mati hafði verið afar vel unnin í nefndinni. Hluta af breytingunum má síðan rekja til þeirrar staðreyndar að kominn er nýr maður í embætti fangelsismálastjóra sem hefur sýnt og sannað með framgöngu sinni að hægt er að hafa áhrif á gang mála en hann hefur tekið upp á sína arma mál sem hafa þurft breytinga og lagfæringa við. Ég held að þetta tvennt sé tvímælalaust að skila þeim árangri sem lesa má um í skýrslu umboðsmanns. Það er því ljóst að með störfum okkar og lagasetningu getum við þingmenn haft áhrif á það á hvern hátt mál berast umboðsmanni og hvers konar mál það eru sem hann fær til meðhöndlunar.

Um frumkvæðismál umboðsmanns vil ég síðan segja að allsherjarnefndin fékk í hendur tvær athuganir sem umboðsmaður hefur gert að eigin frumkvæði. Þar er um að ræða nýtt efni, upplýsingar þar sem umboðsmaður hefur farið ofan í saumana á ákveðnum þáttum sem hafa verið á hans borðum í talsverðum mæli og þar er í annan stað um að ræða álit vegna athugunar á afgreiðslutíma 48 sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda. Þar fer umboðsmaður ofan í saumana á því á hvern hátt það sjálfstæða stjórnvald sem úrskurðarnefndirnar eru sinni þeim málum sem til þeirra koma. Að hinu leytinu erum við svo með glænýja athugun umboðsmanns á skráningu og afgreiðslu mála hjá 32 stjórnvöldum, þ.e. á hvern hátt t.d. ráðuneytin skrá þau mál sem koma inn á borð hjá þeim.

Það eru mjög athyglisverðar upplýsingar í báðum málunum sem ég held að sé alveg fullt tilefni fyrir okkur alþingismenn til að skoða eilítið nánar. Í skoðuninni sem varðar sjálfstæðar stjórnsýslunefndir og úrskurðarnefndir segir umboðsmaður að stofnun slíkra nefnda hafi kannski öðru fremur einkennt íslenska stjórnsýslu á síðasta áratug. En það sem við þurfum að hafa í huga er að hér er um að ræða stjórnvald, þ.e. nefndir sem eru ekki hluti af hinni eiginlegu stjórnsýslu ráðuneytanna vegna þess að þær heyra ekki beint undir ráðuneytin eða stofnanirnar sem undir ráðuneytin heyra heldur er kveðið á um í lögum að þessar stjórnsýslunefndir séu sjálfstæðar. Með öðrum orðum, ákvarðanir eða úrskurðir stjórnsýslunefndanna verða ekki bornir undir ráðherra með stjórnsýslukæru. Við alþingismenn höfum sem sagt í auknum mæli verið að beita þessu lagalega úrræði, þ.e. að setja á fót slíkar úrskurðarnefndir og fjölskyldunefndir sem hafa þetta sjálfstæði. Þess vegna er mikilvægt að við, löggjafinn, skoðum ofan í kjölinn á hvern hátt þetta úrræði reynist í stjórnsýslunni. Og ég verð að segja að þegar ég skoða álit umboðsmanns á hvern hátt þessi mál hafa verið að þróast hjá úrskurðarnefndum þá veldur það mér talsverðum vonbrigðum eða áhyggjum.

Það hefur líka komið í ljós í könnunum umboðsmanns að afgreiðslutími sumra úrskurðarnefndanna hefur verið afar langur og farið langt út fyrir þá tímaramma sem lög heimila en eins og við vitum þá er víða bundið í lög hversu langan tíma slíkar nefndir hafa til þess að afgreiða mál sín og kveða upp úrskurði. Þó svo að þessar nefndir hafi jafnvel fengið áminningar hjá umboðsmanni þá hefur það kannski ekki breytt neinu í afgreiðsluhraðanum og ég held að afar mikilvægt sé að tekið sé á þessu af festu til að tryggt sé að þetta lagaúrræði skili sér. Ef það skilar sér ekki og þetta úrræði virkar ekki með þeim hætti sem löggjafinn hefur ætlast til þá verðum við sem löggjafi líka að taka það til endurskoðunar og ekki að stunda þennan sið sem við höfum tekið upp að setja á laggirnar úrskurðarnefndir af þessu tagi.

Það verður að hafa það í huga að á árinu 1996 voru slíkar nefndir 24 samkvæmt lögum en árið 2006 eru þær orðnar 58. Þetta er gríðarleg fjölgun á því tímabili og þegar maður les í gegnum skýrslu umboðsmanns þá veldur það manni áhyggjum hvernig þær leysa störf sín af hendi. Ef það er skortur á fjármunum þá þurfum við að skoða það, ef það er eitthvað annað í störfum nefndanna sem veldur því að það er dráttur á afgreiðslu mála þá þurfum við að skoða það. Við þekkjum auðvitað að verkefni þessara nefnda eru af ýmsu tagi. Áður en þær koma til er um að ræða verkefni sem ráðuneytin sjálf hafa haft til úrlausnar eða stofnanir á vegum ráðuneytanna. Sem dæmi um nefndir sem sinna stjórnsýsluverkefnum af þessu tagi má t.d. nefna mannanafnanefnd, útvarpsréttarnefnd, bótanefnd vegna bótagreiðslna úr ríkissjóði til þolenda afbrota en mest virðist þó fjölgunin hafa orðið í úrskurðar- og kærunefnd þar sem úrskurðarvald í kærumálum á æðra stjórnsýslustigi hefur verið fært frá ráðherra til slíkrar nefndar. Einnig kemur fram í álitinu að stofnað hafi verið til nokkurra kæru- og álitsnefnda sem ekki kveði upp bindandi úrskurði heldur geti borgararnir snúið sér til þeirra og fengið rökstutt álit um hvort fylgt hafi verið réttum reglum á sviði nefndarinnar sem starfa á.

Nú kemur fram í skýrslu umboðsmanns að ein af óskráðum grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins sé að ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er og hann nefnir til sögunnar 9. gr. stjórnsýslulaganna að þessu leyti, greinina er varðar málshraða en málshraðareglan er hluti af réttaröryggisreglum stjórnsýsluréttarins og henni er ætlað að stuðla að greiðari og skilvirkari stjórnsýslu. Við sem löggjafi ætlumst auðvitað til þess með þeim lagatextum sem við höfum sett að þessar nefndir séu skilvirkar en það kemur í ljós í álitinu að á það skortir. Ég rek sérstaklega augun í að nefndirnar sem umboðsmaður kannar aðstæður hjá í áliti sínu tekst ekki einu sinni að skila umboðsmanni áliti eða svara bréfum umboðsmanns innan einhvers eðlilegs frests. Á bls. 9 í skýrslunni kemur í ljós að flestar nefndirnar hafi sent upplýsingarnar til seinna könnunartímabilsins sem um ræðir innan tilskilins frests sem umboðsmaður gaf en þrátt fyrir ítrekanir til þeirra sem ekki svöruðu innan frestsins þá bárust engin svör frá þremur nefndum. Þannig að jafnvel umboðsmanni Alþingis er ekki sinnt, hvað þá almennum borgurum sem eiga að sækja til slíkra nefnda. Og það er rétt að nefna það hér að þær þrjár nefndir sem ekki svara innan þess frests sem umboðsmaður gefur eru: bótanefndin, greiðsla bóta til þolenda afbrota, mannanafnanefnd og úrskurðarnefnd atvinnuleysisbóta sem starfar samkvæmt lögum nr. 12/1997. Ég verð að segja, kannski sérstaklega í tilviki bótanefndar um greiðslu á bótum til þolenda afbrota, að það vekur upp hugleiðingar að hún skuli ekki svara því ef áfram er lesið kemur í ljós að í tilviki þeirrar nefndar hafi dóms- og kirkjumálaráðuneytið verið upplýst um þann óhæfilega drátt sem hafi orðið á afgreiðslu margra mála hjá nefndinni og í framhaldi af þeim upplýsingum sem ráðherra berast þá ákvað ráðherra í sumar sem leið að leysa nefndarmenn frá störfum. 1. ágúst síðastliðinn mun svo hafa verið skipuð ný nefnd sem nú hefur tekið til starfa. Í áliti umboðsmannsins kemur síðan í ljós að dómsmálaráðuneytið hafi greint frá því vegna kvörtunar einstaklings til umboðsmanns yfir töfum á meðferð máls hjá bótanefndinni 18. október 2006, að 334 óafgreidd mál hafi verið færð til hinnar nýskipuðu bótanefndar. Það kemur líka í ljós að elstu málin á listanum hafi verið frá 2001–2002. Þau hafa því verið 4–5 ár í vinnslu hjá bótanefndinni. Það að við skulum hér, löggjafinn á Alþingi Íslendinga, setja í lög ákvæði um nefndir af þessu tagi sem síðan kynna sér ekki þau mál sem samkvæmt lögum er ætlast til að þær sinni, er mjög alvarlegt. Og ég held að við, a.m.k. þeir þingmenn sem starfa í allsherjarnefnd Alþingis, verðum að skoða þetta ofan í kjölinn. Nú höfum við fengið ráðrúm og tíma til að fara ofan í þessi frumkvæðismál umboðsmanns Alþingis sem eru afar greinargóð og athyglisverð og ég held að í kjölfarið á því verðum við að taka þetta til áframhaldandi umfjöllunar í nefndinni svo tryggja megi að þessu sé ekki viðhaldið, slíkum starfsháttum sem tíðkast úti á akrinum.

Umboðsmaður Alþingis hefur sýnt aðhald. Hann hefur farið ofan í saumana á þessum málum. Það er mjög einfalt fyrir okkur að rekja það hvernig umræddar nefndir hafa staðið sig í stykkinu og gera þá þær bragarbætur sem nauðsynlegar eru með löggjöf eða með öðrum hætti og ég held að það heyri undir okkur í allsherjarnefndinni að taka þessi mál til áframhaldandi skoðunar og kem til með að beita mér fyrir því.