133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:15]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Umræða um Ríkisendurskoðun og ársskýrslu hennar er gagnleg og nauðsynleg og í tengslum við hana er eðlilegt að menn ræði um stöðu Ríkisendurskoðunar og það hefur verið gert hérna.

Sett hefur verið út á það í umræðunni að Ríkisendurskoðun hafi fjallað um hæfi Halldórs Ásgrímssonar og alveg ástæða til að velta því fyrir sér hvort Ríkisendurskoðun sé um slíkt fær og hvort hún sé engum háð eins og gert er ráð fyrir í þeim lögum sem um hana fjalla. Er það svo? Er hún engum háð? Ég held að svo sé ekki. Ég held að ríkisendurskoðandi sé háður stjórnvöldum og ég held að það hafi áhrif á ákvarðanir ríkisendurskoðanda og hafi gert það, a.m.k. í því tilfelli þegar Ríkisendurskoðun fjallaði um Landsbankamálið gamla og kannski líka þegar Ríkisendurskoðun fjallaði um hæfi Halldórs Ásgrímssonar á þessu ári, sem hér er til umfjöllunar.

Þá þurfa menn að velta því fyrir sér hvort hægt sé að gera Ríkisendurskoðun óháða eða ríkisendurskoðanda, sem er æðsti yfirstjórnandi og verður að vera óháður eigi stofnunin að geta orðið það. Þá þarf að velja ríkisendurskoðandann með öðrum hætti en gert er, vegna þess að ríkisendurskoðandi sem þarf að fást við mál sem skipta æðstu ráðamenn þjóðarinnar mjög miklu máli og á auk þess það undir að ná endurkjöri sem ríkisendurskoðandi eftir einhvern tíma, er í klemmu og hann er ekki óháður.

Ég tel þess vegna að menn eigi að velta því fyrir sér hvort ekki eigi með einhverju móti að hugsa þessi mál upp á nýtt hvernig ríkisendurskoðandi er valinn, ekki síður en hvernig valið er í Hæstarétt. Það er alveg hægt að finna einhverjar leiðir sem eru ekki með sama hætti og hér um ræðir. Menn gætu t.d. farið til Ameríku og athugað hvernig menn velja í kviðdóm eða eitthvað slíkt, hvernig ríkisendurskoðandi skuli valinn. Ég segi þetta í hinni mestu alvöru af því að dæmi eru um, og ég ætla ekkert að fara betur yfir þau hér, ég hef gert það áður, að ekki hafi verið fjallað eðlilega um mál hjá Ríkisendurskoðun. Þau eru sem betur fer örfá. Flestar skýrslur og nánast allar skýrslur Ríkisendurskoðunar eru mjög vel unnar, ég tek það fram. En ég tel ástæðu til að nefna þetta og alveg sérstaklega vegna þess að hér er líka til umræðu sú skýrsla sem fjallaði um hæfi Halldórs Ásgrímssonar og hlýtur að vekja upp umræðu um hvort Ríkisendurskoðun sé um það fær að taka á málum af því tagi.

Síðan langaði mig að víkja að öðru máli. Það segir í skýrslunni að stór hluti af endurskoðunarstörfum Ríkisendurskoðunar sé bundinn í lögum. Segir þar, með leyfi forseta:

„Að öðru leyti ákveður stofnunin og skipuleggur verkefni sín út frá eigin mati á mikilvægi og áhættu. Líkt og aðrar ríkisendurskoðanir er meginmarkmið hennar að stuðla að skynsamlegri nýtingu ríkisfjármuna.“

Á undan er reyndar sagt í textanum, með leyfi forseta:

„Í lögum um Ríkisendurskoðun er skýrt tekið fram að hún sé engum háð í störfum sínum og að starfsfólk hennar skuli í einu og öllu vera óháð þeim ráðuneytum og stofnunum sem það vinnur að endurskoðun hjá. Ríkisendurskoðun ákveður einnig hvar og hvenær endurskoðað er.“

Markmiðin eru skýr. Ríkisendurskoðun skal vera óháð og ég tel að tryggja þurfi að hún geti verið það og um það sé enginn vafi.

Síðan segir á bls. 11 þar sem vikið er að stjórnsýsluendurskoðunum sem Ríkisendurskoðun fer í, með leyfi forseta:

„Með stjórnsýsluúttektum sínum leitast Ríkisendurskoðun einkum við að leggja mat á hagkvæmni rekstrar, skilvirkni og árangur og hvort gildandi lagafyrirmælum sé framfylgt. Hluti úttektanna er saminn að beiðni forsætisnefndar Alþingis, einstakra ráðuneyta eða ríkisstofnana en hluti að frumkvæði stofnunarinnar sjálfrar þar sem m.a. er tekið mið af mikilvægi viðfangsefna, kostnaði og áhættu.“

Af hverju er ég að lesa þetta upp? Það er vegna þess að ég tel ástæðu til að nefna að Ríkisendurskoðun hefur aldrei séð ástæðu til að taka Stjórnarráðið sjálft til stjórnsýsluúttektar og til þess eru fullar ástæður að gera. Það er öllum mönnum ljóst að þar fer mikið í súginn vegna þess að þar er skilvirkni, samsetning ráðuneytanna, skörun á verkefnum þeirra o.s.frv. að valda því að verið er jafnvel að fjalla um marga hluti á mörgum stöðum. Enginn vafi er á að mikið fer í súginn vegna þess hvernig Stjórnarráðið er samansett.

Það væri ekki ónýtt að eiga úttekt á Stjórnarráðinu sem Ríkisendurskoðun hefði framkvæmt og lagt mikla vinnu í. Ég hef reyndar rætt þetta við ríkisendurskoðanda og það er örugglega ekkert leyndarmál, hvorki hans né mitt, og ég veit að það er ákveðinn vilji og áhugi fyrir þessu. Ég held að enginn ágreiningur sé um að það er hlutverk Ríkisendurskoðunar að gera þetta. Spurningin er: Af hverju hefur það ekki verið gert? Ég ætla svo sem ekkert að gera í þessum ræðustól, hæstv. forseti, annað en að vekja athygli á þessu og leggja til að farið verði í slíka úttekt og það verði gert sem fyrst. Ef hún tekur lengri tíma en svo að hún geti verið tilbúin áður en næstu kosningar fara fram þá eigi Ríkisendurskoðun jafnvel að skila einhvers konar milliáliti þannig að þegar menn setjast nú niður eftir næstu kosningar til að koma saman ríkisstjórn geti menn líka velt því fyrir sér í leiðinni út frá staðreyndum sem Ríkisendurskoðun hafi þá aflað, hvað sé hagkvæmast að gera til að koma betra skipulagi, skilvirkara og ódýrara. Skipulagi sem skilar okkur betri þjónustu frá þeim stofnunum sem þarna er um að ræða. Þetta hefði þurft að vera til núna til að menn gætu verið að ræða þetta í aðdraganda kosninganna, en því miður hefur það ekki verið gert enn þá.

Þetta var aðalerindi mitt hér upp í ræðustólinn og svo hitt að leggja mönnum það til umhugsunar hvort ekki sé ástæða til að velta því fyrir sér áður en næst verður skipaður ríkisendurskoðandi, hvort menn eigi ekki að taka svona snúning á þeirri umræðu hvernig hægt er að styrkja Ríkisendurskoðun og ríkisendurskoðanda þannig að það sé ekkert vafamál að hann sé óháður stjórnvöldum í landinu á hverjum tíma, því að það eru þau sem hann á að hafa aðhaldið að. Ef hann er háður þeim á einhvern hátt verður það aðhald ekki eins og best verður á kosið.