133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:34]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka hæstv. forseta Alþingis fyrir framsöguræðu sína um skýrslu ríkisendurskoðanda en skýrslan er með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin ár.

Það er kannski rétt í upphafi að byrja á formála ríkisendurskoðanda sjálfs þar sem hann leggur út af þeim árangri sem náðst hefur með svokölluðum árangursstjórnunarsamningum milli ráðuneyta og stofnana. Í slíkum árangursstjórnunarsamningum er kveðið á um markmiðssetningu, þjónustustig og fjármál viðkomandi stofnunar. Eins og staðan er nú hafa verið gerðir árangursstjórnunarsamningar við flestar stofnanir ríkisins.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þrátt fyrir þetta tekur ríkisendurskoðandi fram að aðeins lítill hópur stjórnenda í opinberum stofnunum hafi tileinkað sér stefnumiðuð vinnubrögð. Það er auðvitað ekki nógu gott og er eitthvað sem þarf að bæta úr á næstu árum.

Það vekur líka athygli í skýrslu ríkisendurskoðanda að á undanförnum árum hefur Ríkisendurskoðun unnið að því að þróa öflugt upplýsingakerfi. Það kemur fram hversu margar stundir voru notaðar á síðastliðnu ári til að vinna við slíkt kerfi og hversu miklu fleiri stundir voru notaðar til þess en árið áður.

Það vekur hins vegar líka athygli að afköst við fjárhagsendurskoðun hafa minnkað og það virðist að hluta til mega skýra með nýju fjárhagskerfi ríkisins sem hefur leitt til erfiðleika við úrvinnslu eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Það er rétt að taka fram að starf Ríkisendurskoðunar og ríkisendurskoðanda er allumfangsmikið. Það kemur fram í skýrslu hans að stofnunin hafi áritað 344 ársreikninga, samið 238 endurskoðunarskýrslur og sinnt öðrum verkefnum bæði að eigin frumkvæði og að frumkvæði annarra.

Sömuleiðis kemur fram í skýrslunni að tvær viðamiklar skýrslur hafi verið unnar, eins og hæstv. forseti Alþingis vék að áðan, sem vörðuðu Landsvirkjun annars vegar og Landmælingar Íslands hins vegar. En ég vil líka vekja athygli á þeim stjórnsýsluúttektum sem stofnunin vann á síðasta ári. Þar eru engar smástofnanir undir, m.a. Háskóli Íslands og Landspítali – háskólasjúkrahús. Það er því alveg ljóst að þrátt fyrir að stjórnsýsluúttektum hafi fækkað um eina þá er a.m.k. um verulega stórar stofnanir að ræða í þessum tveimur tilvikum.

Skýrslan um Landspítala – háskólasjúkrahús sneri að sameiningu sjúkrahúsanna hér í Reykjavík. Það kom síðast fram á fundi fjárlaganefndar í morgun að stjórnendur spítalans töldu að raunkostnaður nú væri sá sami og fyrir sameiningu spítalanna 1999, þrátt fyrir að íbúum hefði fjölgað um 6,7% og þar af íbúum eldri en um sjötugt um 11% og íbúum eldri en áttrætt um 25%, en það eru auðvitað elstu sjúklingarnir sem þurfa mesta þjónustu af hálfu spítalans.

Á bls. 12 í skýrslunni er að finna upplýsingar um endurskoðun upplýsingakerfa sem ég gat um áðan. Þar kemur fram að vinnustundum við upplýsingakerfin, eða endurskoðun upplýsingakerfa, hefur fjölgað mjög mikið, úr 3.500 tímum rúmum upp í 6.657.

Ég vil vekja athygli á því sem kom fram hjá hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur um nauðsyn þess að Alþingi tæki og ynni áfram skýrslur Ríkisendurskoðunar. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt og ég vil beina því til hæstv. forseta Alþingis og forsætisnefndar að vinna að tillögum í þeim efnum, m.a. hvort fjárlaganefnd þingsins eigi að taka skýrslurnar til sérstakrar umfjöllunar og afgreiða með bókun eða hugsanlega vísa málinu eftir umfjöllun nefndarinnar til umræðu í þingsalnum.

Ég get ekki látið hjá líða að gera nokkrar athugasemdir við orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar þar sem hann lagði áherslu á að ríkisendurskoðandi væri óháður stjórnvöldum. Ég held að við getum öll tekið undir það og séum flest ef ekki öll sammála um að svo sé. Hv. þm. Jóhann Ársælsson taldi skýrslu um hæfi Halldórs Ásgrímssonar til að fjalla um sölu á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum til S-hópsins, vera dæmi um að ríkisendurskoðandi væri ekki óháður stjórnvöldum.

Þetta er nú eins og annað í málflutningi stjórnarandstöðunnar hér á þinginu. Ef niðurstöður Ríkisendurskoðunar henta ekki stjórnarandstöðunni þá eru skýrslurnar auðvitað stórgallaðar. Mér finnst þetta heldur lágt lagst, hæstv. forseti og ekki vera þingmanninum til mikils sóma. Auðvitað er það ekki svo að skýrslur Ríkisendurskoðunar fari eftir því um hvað er verið að fjalla hverju sinni. Það er ótrúlegt að hv. þm. Jóhann Ársælsson skuli halda því fram að ríkisendurskoðandi taki við fyrirmælum frá ríkisstjórn eða einstökum ráðherrum.

Það er eitt atriði sem ég vil vekja athygli á og hefur ekki komið fram í umræðunni nú en það er umhverfisendurskoðun. Ég held að sá þáttur endurskoðunar eigi eftir að verða mjög umfangsmikill í framtíðinni og vek athygli á grein eða kafla sem Ketill Sigurjónsson, lögfræðingur á lagaumhverfissviði Ríkisendurskoðunar, ritar í skýrsluna og hefst á bls. 21.

Umhverfisendurskoðun felst fyrst og fremst í því að kanna og meta árangur á sviði umhverfismála, t.d. hvernig alþjóðasamningum um umhverfismál hefur verið framfylgt og hvaða hagur fylgir slíkum samningum.

Það kemur fram í skýrslunni að á síðustu tveimur árum hafi Ríkisendurskoðun samið skýrslu á sviði umhverfisendurskoðunar á framfylgd Íslands á OSPAR-samningnum annars vegar og hins vegar um samning um líffræðilega fjölbreytni. Þetta eru þeir tveir samningar sem ríkisendurskoðandi hefur skoðað og eins og fram kemur í skýrslunni eru alþjóðasamtök ríkisendurskoðana að beita sér fyrir því að fram fari umhverfisendurskoðun á því hvernig aðildarlöndin, þ.e. að þeim samtökum, hafi staðið sig í því að fylgja eftir Kyoto-bókuninni um varnir gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum.

Það er mikið og stórt mál og full ástæða fyrir okkur Íslendinga til að taka það mjög alvarlega og ekki væri verra ef ríkisendurskoðandi mundi beita sér í þeim efnum og kanna hvernig íslensk stjórnvöld hafa staðið sig þar.

Ég vil ítreka þakkir mínar til hæstv. forseta Alþingis fyrir hennar ágæta yfirlit og tek undir kveðjur hennar og þakkir til ríkisendurskoðanda og Ríkisendurskoðunar. Starfsemi Ríkisendurskoðunar er mjög mikilvæg fyrir Alþingi. Þetta er önnur af tveimur stofnunum Alþingis sem starfa á vegum Alþingis. Það er mjög mikilvægt fyrir löggjafarvaldið að geta með þessum hætti fylgst með athöfnum framkvæmdarvaldsins.