133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[14:45]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson vék orðum að því sem ég sagði í ræðu minni um hæfi ríkisendurskoðanda. Þar var ég ekki að leggja dóm á skýrslu þá sem Ríkisendurskoðun gerði um hæfi Halldórs Ásgrímssonar heldur benti á það að vegna þess hvernig ríkisendurskoðandi er valinn — og er þess vegna háður stjórnvöldum, áhrifamönnum í stjórnmálum á Íslandi — getur verið ástæða til þess að velta fyrir sér hvort ekki þurfi með einhverjum öðrum hætti að velja þann aðila sem veitir þessari stofnun forstöðu. Það tek ég ekki til baka. Ég tel ástæðu til að minna á þá umræðu sem hefur bæði farið fram um þessa skýrslu, þó að ég ætli ekki að fella dóm um hana, sem ég nefndi hér áðan, en ekki síður um einkavæðingu, um Landsbankamálið á sínum tíma. Þannig atriði hafa komið upp í umræðuna og eru þeirrar ættar að það er ástæða til að nefna þau í þessu samhengi.

Ég tel að það þurfi að velta því vandlega fyrir sér hvort einhver önnur aðferð eigi ekki betur við um val á forstjóra þessarar stofnunar til að tryggja að hann geti alltaf verið óháður í störfum sínum og að enginn þurfi að efast um að hann sé það.