133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:15]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka brýninguna. Það er mjög mikilvægt að við vöndum verkin í fjárlaganefndinni á því ári sem fram undan er, eða fram að kosningum. Ég hef einmitt lýst því yfir að eftir áramót munum við í nefndinni fara ofan í þá verkferla sem hafa verið í fjárlagaferlinu. Ég tel að við getum bætt vinnubrögðin og gert þau markvissari að mörgu leyti. Ég tel að innan nefndarinnar ríki samstaða um að ræða þau mál fordómalaust eftir áramótin.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því, þegar hv. þingmenn ræða um umframkeyrslur, umframfjárlög og ónýttar fjárheimildir sem stofnanir eru að flytja með sér yfir hver áramót, jafnvel leggja þá liði saman, þær stofnanir sem fara umfram 4% á fjárheimildum og þær stofnanir sem eiga kannski inneignir yfir áramót umfram 4%, að þar er um gjörólík vandamál að ræða.

Ég kalla það varla vandamál ef ábyrgir forstöðumenn stofnana vilja leggja eitthvað til hliðar ef til óvæntra skakkafalla kæmi í rekstri viðkomandi stofnunar, það er mjög mikilvægt fyrir margar stofnanir að eiga einhverjar fyrningar til að geta tekið á slíkum vandamálum.

Hv. þingmenn Samfylkingarinnar margir hafa gefið það í skyn að það sé ákveðið vandamál að stofnanir sem eiga inneignir ár eftir ár og fara með þær fram yfir áramót, að það þurfi að taka á þeim málum. Ég vil einfaldlega vara við því vegna þess að ég tel að með slíku byggjum við upp þann hvata að menn eyði alltaf öllum fjárveitingum hvers árs. Það er ákveðinn hvati í því fjárlagakerfi sem nú er, að menn séu aðsjálir í fjármálum, leggi til hliðar ef óvæntir atburðir koma upp í rekstri einstakra stofnana.

Þannig að ég verð ekki sammála því að um agaleysi sé að ræða þegar forsjálir forstöðumenn stofnana leggja til hliðar um hver áramót og reyna að mæta óvæntum skakkaföllum hverju sinni.