133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:18]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bara árétta þau atriði sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir benti á, að við fjárlagagerðina og umsýslu fjárlaga eru hinar einstöku stofnanir almennt ekki vandi. Aðalvandinn er sá að þeim hefur verið skammtað of naumt fé miðað við verkefnin sem þeim eru falin. Fjárlaganefnd og Alþingi veit að það er verið að skammta of naumt, hvort sem það eru sjúkrahús, framhaldsskólar eða aðrar stofnanir þar sem fyrir fram er verið að skammta of naumt og að ekki er hægt að reka neinn út á miðjum vetri og segja: Nú eru peningarnir búnir. Þetta er yfirleitt vitað.

Vandinn er miklu frekar hjá ráðuneytunum sjálfum. Hjá ráðherrum og ráðuneytum. Þar er vandinn yfirleitt miklu meiri en þar skortir líka viljann og kannski kraftinn, þ.e. hjá þingmönnum og fjárlaganefnd til þess að taka á. Þó að við séum sammála um að það eigi að gera það þá komumst við lítið áfram gagnvart ráðherravaldinu. Það er það sem á að draga til ábyrgðar. En menn falla oft í þá gryfju að hamast á einstöku stofnunum sem er skammtað allt of naumt.

Ég hvet því hv. þingmann, sem nú er formaður fjárlaganefndar, verður það reyndar væntanlega ekki nema til vorsins, þegar við kjósum aftur og skiptum um ríkisstjórn, að taka nú á. Ég er búinn að vera í fjárlaganefnd í nokkur ár og get upplýst að mér finnst ástandið aldrei hafa verið verra í stjórnsýslu ráðuneytanna hvað fjármál varðar og umgengni um fjárreiðulög.

Aðeins í lokin, herra forseti, varðandi það sem hv. þingmaður sagði um Landspítalann, en forstjóri Landspítalans kom í heimsókn til okkar, þá er sjálfsagt að skoða starfsmannalögin og það er bara hluti af þessu. En það sem forstjóri Landspítalans lagði áherslu á er mönnunarvandinn og í því ástandi sem nú ríkir á vinnumarkaðnum, (Forseti hringir.) ef það breytist ekki þá verður erfitt að leysa það mál.