133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:20]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að fara að karpa við hv. þingmann í þessari umræðu um fjárlagagerðina sem slíka. En það er alveg ljóst að við getum aldrei, munum aldrei og höfum aldrei getað mætt öllum kröfum sem hafa verið við viðkomandi fjárlagagerð hverju sinni. Rétt eins og að heimilin geta ekki leyft sér allt, þá getum við ekki heldur leyft okkur allt.

En ég er sammála hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að það er mjög mikilvægt að við förum ofan í rekstrargrunn einstakra stofnana. Fjárlaganefndin er í þeirri vinnu núna og ég tel að við höfum nokkuð góða mynd af því hver staða einstakra stofnana er enda höfum við nú setið á fundum í allt haust til að viða að okkur upplýsingum hvað það varðar.

Frumvarpið er komið í hendur fjárlaganefndar og þingsins og við munum að sjálfsögðu skoða rekstur einstakra stofnana og gera breytingar ef þess er þörf. Við erum einfaldlega í vinnu hvað þetta varðar, að ég tel bara í ágætu samkomulagi, þó svo ég efist ekkert um að þegar við verðum komin inn í þingsal við 2. umr. fjárlaga þá muni hv. stjórnarandstaða geta fundið einhvern veikan blett á 370 milljarða kr. fjárlagafrumvarpi ársins 2007. Skárra væri það.

En eins og ég segi, við munum aldrei geta og höfum aldrei getað mætt öllum kröfum. En mjög mikilvægt að við förum ofan í rekstrargrunn þessara stofnana þannig að þær geti a.m.k. sinnt sínum lögboðnu hlutverkum.