133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:22]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þessi orðræða kom upp vegna þess að Ríkisendurskoðun hefur ár eftir ár í skýrslum sínum um meðferð og framkvæmd fjárlaga vakið athygli á því að nánast ekkert eða mjög lítið er gert með ábendingar þeirra. Þess vegna standa þessi orð sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir vitnaði hér til, ár eftir ár eru sömu vandræðin að velkjast um, sömu ábendingarnar.

Menn falla oft í þá gryfju að kenna einstökum stofnunum um. En vandinn er að mínu mati miklu frekar hjá framkvæmdarvaldinu sjálfu, hjá ráðuneytunum, hjá ráðherrunum sem hafa að engu eða litlu vilja og tilskipanir Alþingis og nefnda þess og stofnana eins og Ríkisendurskoðunar.

Þessu vildi ég bara vekja athygli á svo menn séu ekki að hlaupa frá því hvar hinn raunverulegi vandi er. Hann er hjá framkvæmdarvaldinu sjálfu. Ég á eftir að sjá það núna og tek undir orð hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar þar um, sem ég tel að hafi lýst því a.m.k. í störfum fjárlaganefndar, að vilja taka á þessu, og ég bara vona að við sjáum árangur þess við fjárlagagerðina nú í haust.

En ég vil ítrekað benda á, af því minnst var á vinnumarkaðinn, að það er alveg ljóst að það verður að breyta um stefnu í atvinnumálum, í stóriðjumálum, ef menn eiga að ná jafnvægi á vinnumarkaði, eins og t.d. hjá Landspítala – háskólasjúkrahúsi, þar sem sárvantar núna fagfólk, hjúkrunarfólk o.s.frv., einmitt vegna þenslu og rangrar stefnu í atvinnumálum.