133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 2005.

[15:37]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fram kom hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að það væri gott að hafa Ríkisendurskoðun og við erum þó a.m.k. sammála um það, og ég held að allir hv. þingmenn séu sammála í þeim efnum. En það sem hv. þingmaður var kannski aðallega að fjalla um voru efasemdir hans um hvernig ætti að velja ríkisendurskoðanda. Það eru í sjálfu sér góð og gild sjónarmið að hv. þingmaður efist um það og að sú aðferð sem notuð er í dag gæti verið önnur. En hverjar eru þá tillögur hv. þingmanns í þeim efnum? Hverjar eru tillögur Samfylkingarinnar í þeim efnum? Það hefur ekki neitt slíkt komið fram á hinu háa Alþingi. Og það er sorglegt, hæstv. forseti, að horfa upp á það að hver hv. þingmaður stjórnarandstöðunnar á fætur öðrum skuli koma í ræðustól og rakka niður ríkisendurskoðanda. Af hverju er það? Af því að einhverjar niðurstöður Ríkisendurskoðunar eru ekki hv. þingmönnum þóknanlegar. Það er ömurlegt, hæstv. forseti, að þurfa að horfa upp á þetta í sölum Alþingis.