133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:14]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara þeim spurningum sem ég beindi til hennar. Þó fannst mér hæstv. ráðherra staðfesta að þjónustuþátturinn í samningunum við Landssamband eldri borgara hafi verið notaður sem svipa á þá til að þeir féllust á það sem hér kemur fram varðandi almannatryggingarnar. Það er þó gott að hæstv. ráðherra skuli kannast við það.

Mér fannst hæstv. ráðherra gera lítið úr þeirri óánægju sem kraumar undir hjá eldri borgurum og þeirri óánægju sem mjög sterklega hefur komið í ljós opinberlega hjá Samtökum eldri borgara og Landssambandi eldri borgara með hversu skammt var gengið varðandi lífeyristryggingarnar.

Varðandi frítekjumarkið óska ég eftir því að hæstv. ráðherra svari því aðeins betur: Af hverju 2009 og 17 þús. kr.? Af hverju 2010 og 25 þús. kr. á mánuði? Af hverju ekki að taka stærra skref og það strax? Því væntanlega, eins og atvinnuleysi og atvinnuþátttöku er háttað í dag, mundu margir eldri borgarar vilja taka meiri þátt í atvinnulífinu ef þeir misstu ekki hverja einustu krónu í ýmsar skerðingar með því að ná sér í atvinnutekjur. Það þýddi að eldri borgarar sem hefðu launatekjur greiddu af því skatt þegar þeir væru komnir upp fyrir skattleysismörk í heildartekjum og spurning hvort það hafi verið skoðað í ráðuneyti hæstv. ráðherra hvernig samspil þessa gæti verið.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er hvort hæstv. ráðherra þyki það ekki eðlilegt og sjálfsagt að ræða saman í heilbrigðis- og trygginganefnd tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála sem þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram og svo frumvarpið sem hér er til umfjöllunar því að bæði þingsályktunartillagan og frumvarpið taka á sömu málum. Munurinn er sá að þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar gengur lengra í átt að óskum eldri borgara og mun lengra í þá átt að tryggja sjálfstæði og (Forseti hringir.) sjálfsákvörðunarrétt þeirra sem eldri eru.