133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:24]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þróunin hefur verið sú, eins og ég gat um áðan, að í ljós kom að verið var að ofgreiða milljarð og vangreiða milljarð. Það er sem sagt búið að laga það.

Þetta hefur þróast með árunum og hefur helst breyst á síðustu árum. Síðast var ofgreitt í kringum 700–800 millj. kr. og vangreiddar í kringum 200 millj. kr. Það er því farið að breytast.

Við fáum færri kvartanir núna en fyrst vegna þess að fólk er farið að átta sig á því að það þarf að gefa réttar upplýsingar, annars bara fær það rukkun um að það þurfi að endurgreiða. Í dag berast því færri kvartanir. Það er samt erfitt fyrir þá sem fá ofgreiðslur og þurfa að endurgreiða. Þess vegna erum við að setja þessa mildandi reglugerð til að koma til móts við þann sársauka sem því fylgir að þurfa að innheimta ofgreiddar bætur.

Þetta hefur skapað mjög mikið álag á Tryggingastofnun ríkisins. Gerð hefur verið krafa um að auka svokallað samtímaeftirlit hjá Tryggingastofnun ríkisins, sem er það sem hv. þingmaður hefur nefnt að við getum fyrr séð hvort er ofgreitt eða vangreitt. Til að svo geti orðið hjá Tryggingastofnun ríkisins höfum við þurft að styrkja þá stofnun verulega. Ég vil nefna að í frumvarpi til fjáraukalaga á þessu ári er sett inn 50 millj. kr. viðbótarframlag til reksturs Tryggingastofnunar ríkisins. Af þeim eru 20 millj. kr. vegna breytinga á tölvukerfum til að geta komið til móts við slíkt samtímaeftirlit. Á fjárlögum fyrir árið 2007 setjum við inn 60 millj. kr. varanlegt rekstrarframlag vegna framkvæmdarinnar við tekjutengdar bætur.

Þessi vandi kemur upp af því bæturnar eru tekjutengdar. Þá lendum við í því að menn gefa rangar upplýsingar, eða vita ekki betur, segja sumir. Þá erum við að ofgreiða eða vangreiða og þá þarf að innheimta.