133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:27]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga sem komið er inn í þingið í framhaldi af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og fulltrúa eldri borgara í haust eftir nefndarvinnu með Ásmundi Stefánssyni á vegum forsætisráðuneytisins. Ég ætla ekki að hafa langa ræðu um málið vegna þess að ég er búin að segja álit mitt á þessu svokallaða samkomulagi eða yfirlýsingu í umræðu um tillögu til þingsályktunar sem stjórnarandstaðan lagði fram um nýja framtíðarskipan lífeyrismála. En það er aðeins meira í þessu máli en bara það sem ég ræddi þar og mig langar að ræða nú í nokkrum orðum.

Hér er enn einu sinni verið að lappa upp á almannatryggingarnar án þess að horfa á þær heildstætt. Það hef ég alltaf gagnrýnt og gagnrýni enn. Við verðum að endurskoða almannatryggingarnar heildstætt og horfa á alla þætti því að meðan við vinnum svona eru alltaf einhver göt sem fólk fellur niður um, þetta á að vera öryggisnet.

Aldraðir eða fulltrúar þeirra hafa lýst því yfir að þetta sé fyrsta skref í átt að bættum kjörum en að þeir séu ekki sáttir við málið en hafi ekki náð lengra. Ríkisstjórnin var ekki tilbúin til að ganga lengra til móts við kröfur þeirra. Það erum við aftur á móti í Samfylkingunni og stjórnarandstaðan hefur sameiginlega lagt fram þingmál sem gengur mun lengra og við höfum talað hér fyrir. Áður en lengra er haldið vil ég fara fram á það og mun fara fram á það í heilbrigðis- og trygginganefnd að mál okkar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála verði tekið fyrir samhliða. Við höfum líka lýst því yfir að við munum flytja breytingartillögur við frumvarpið hvað varðar lífeyrisgreiðslur og lífeyristekjur, þ.e. lífeyrisþáttinn, þegar málið kemur aftur inn til þingsins.

Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra að þetta mál þarf að afgreiða fyrir áramót því að þá eiga fyrstu breytingarnar að taka gildi. En við teljum ekki nógu langt gengið og við viljum ganga mun lengra um næstu áramót því að það er gjörsamlega óviðunandi að lífeyrisþegar þurfi að búa við þau kjör sem þeir búa við í dag. Sérstaklega vil ég nefna frítekjumarkið því að hér er verið að breyta almannatryggingunum á þann hátt að það er verið að fækka bótaflokkum og einfalda kerfið, sem er gott. En frítekjumarkið sem var fyrir í almannatryggingunum er tekið burtu og það er ekki gert ráð fyrir frítekjumarki fyrr en eftir tvö ár gagnvart atvinnutekjum og þá allt of lágt.

Þessu mótmælum við og við viljum að frítekjumark komi strax um áramótin, 75 þús. kr., vegna þess að það er mikilvægt fyrir lífeyrisþega að geta aukið tekjur sínar. Það gerir þá félagslega virkari og kemur líka í veg fyrir að þeir lendi í þeirri fátæktargildru sem er inni í almannatryggingunum í dag. Fólk heldur líka frekar heilsu ef það er úti í atvinnulífinu, ef það er félagslega virkt. Ef fólk getur verið áfram úti í atvinnulífinu og hefur tök á að auka tekjur sínar, hafi það löngun til þess, mun það örugglega skila ákveðnum sparnaði í heilbrigðiskerfinu.

Hæstv. ráðherra talaði um að málið væri ekki komið fyrr inn í þingið vegna þess að það væri mikil vinna að baki, miklir útreikningar. Ég geri mér fulla grein fyrir því vegna þess að ég ásamt hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur unnum að því að útbúa þá þingsályktunartillögu sem liggur hér fyrir frá stjórnarandstöðunni og það tók okkur hátt í þrjá mánuði að vinna alla þá útreikninga sem þar liggja að baki. Ég veit því að það felst mjög mikil vinna í því að útbúa svona tillögur.

Ég er sem sagt á því að hér sé alls ekki nógu langt gengið og það er vitað mál að fulltrúum aldraðra var stillt upp við vegg í nefndarstarfinu, þeir urðu að sætta sig við þetta og gera það sem fyrsta skref. En þeir hafa lýst yfir stuðningi við tillögu okkar í stjórnarandstöðunni.

Ég ætla líka að nefna, vegna þess að ég kallaði eftir því fyrr í vikunni að það kæmi hér þingmál um Framkvæmdasjóð aldraðra annað en það sem lá fyrir þá og var til umræðu fyrr í vikunni. Nú er það komið og ég tel að okkar þingmál, mitt og fleiri þingmanna, um Framkvæmdasjóð aldraðra eigi að taka fyrir í heilbrigðis- og trygginganefndinni samhliða því sem fyrir liggur. Í þingmáli okkar förum við fram á ákveðnar breytingar sem við teljum að full ástæða sé til að hafa með og við munum leggja til breytingartillögur í þá veru þegar það mál kemur inn í þingið, svo ég lýsi því bara yfir hér.

Ég vil líka gagnrýna að ekki eigi að afnema að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka. Við viljum afnema þau að fullu því að það eru mannréttindi, persónuleg réttindi, að maður sé ekki með tekjur sem tengjast við tekjur einhvers annars, alveg eins og í atvinnuleysisbótum, alveg eins og í öðrum greiðslum. Þetta er arfur frá liðinni tíð og við eigum að afnema þetta. Við viljum afnema þetta og það mun verða gengið lengra eftir næstu kosningar, komumst við til áhrifa og getum gert það.

Það er fleira í þessu þingmáli sem hæstv. ráðherra var að nefna en bara kjör lífeyrisþeganna, eins og kom fram í framsöguræðu. Það eru m.a. breytingar á slysatryggingunum og ég vil nefna það að ég tel að það sé til bóta, sérstaklega hvað varðar námsmennina. Það er löngu tímabær breyting sem ég hef margoft nefnt hér í þinginu að þurfi að gera og ég fagna því að nú sé verið að gera slíka breytingu og ég mun auðvitað styðja hana og við í Samfylkingunni.

Það er annað sem ég vil nefna áður en ég lýk máli mínu vegna þess að ég ætla að vísa í mál mitt við framsöguna á tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála hvað varðar allar þær breytingar sem hæstv. ráðherra var að leggja hér til, hvar ég tel of stutt gengið og hvar og hvernig við viljum ganga lengra. Ég vil nefna reglugerðina sem hæstv. ráðherra nefndi áðan. Ég kem nefnilega hér inn í þingsalinn af þremur stórum fundum sem ég átti með eldri borgurum eftir hádegið. Það verður að segja eins og er að á hverjum einasta fundi hefur fólk kvartað yfir ofgreiðslum og endurkröfum. Það er ekkert nýtt fyrir mér því að það hefur verið gert lengi. Lífeyrisþegar eru mjög ósáttir við þetta fyrirkomulag og það er löngu tímabært að breyta því en ég held að ekki sé nógu langt gengið í þessari reglugerð.

Hvaða tala var það sem hæstv. ráðherra miðaði við að ætti að duga fyrir lífeyrisþegann þegar væri búið að endurkrefja? Ég held að það sé allt of lág tala sem þar er miðað við. Ég heyri það á öldruðum sem lenda í slíkum endurkröfum að það er ákaflega þröngur kostur hjá þeim, menn hafa ekki mikið að bíta og brenna þegar búið er að endurkrefja þá sem hafa nánast eingöngu greiðslurnar úr lífeyristryggingum almannatrygginga. Þetta tel ég að þurfi að skoða. Auðvitað geta þingmenn ekki breytt reglugerðum, það er ráðherra að gera það og ég hvet hæstv. ráðherra til að gera Tryggingastofnun kleift að afla þannig upplýsinga að við lendum ekki í því árvisst að þurfa að taka til baka fjármuni frá lífeyrisþegum eftir að fólk er búið að eyða peningunum. Við vitum alveg að þeir sem eru með litlar greiðslur úr almannatryggingunum eru búnir að eyða þeim þegar endurkrafan kemur frá Tryggingastofnun.

Ég vil líka nefna það, ég ætla ekki að gera það að umtalsefni vegna þess að ég er búin að tala mikið um þetta mál allt saman en ég tel fullkomlega eðlilegt að þegar við komum með málið inn í heilbrigðis- og trygginganefnd, þar sem fyrir okkur liggur mikil vinna í þessum efnum, að þá verði kallaðir fyrir fulltrúar Landssambands eldri borgara og fulltrúar þeirra í nefndinni og við heyrum í þeim. Ég hef heyrt í þeim um þetta mál og þeir eru ákaflega ósáttir við hversu skammt er gengið og nefndin þarf að heyra slíkar yfirlýsingar frá þeim og ég hlakka til að takast á við þetta. En ég boða enn og aftur þær breytingartillögur sem við höfum talað fyrir og snúa að tillögum okkar, stjórnarandstöðunnar: Við viljum hærri tekjutryggingu, minni skerðingu, við viljum frítekjumark vegna atvinnutekna lífeyrisþega strax, 75 þús. kr. til að fólk sem vill verða virkt í atvinnulífinu geti orðið það, við viljum afnema vasapeningakerfið en þangað til það verður afnumið verði 50% hækkun á vasapeningum. Vasapeningafólkið varð útundan í sumar og á aðeins að fá 25% hækkun um áramót samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar.

Ég vil einnig nefna þá lífeyrisþega sem eru með lífeyrisgreiðslur og eru inni á stofnunum. Þeir þurfa að halda eftir stærri hluta af lífeyrisgreiðslum sínum áður en þetta vasapeningakerfi verður aflagt því að þeir hafa of litla fjármuni af lífeyrisgreiðslum sínum handa á milli inni á stofnunum. Það þarf að skilgreina neysluútgjöld lífeyrisþega eins og við leggjum til og afnema að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við tekjur maka og síðan að öryrki haldi aldurstengdri örorkuuppbót. Breytingartillögur í þessa veru munum við leggja til þegar málið kemur aftur hingað inn í þingið.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.