133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[16:49]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um málefni aldraðra. Það verður að segjast eins og er að aldraðir og öryrkjar — hluti þeirrar breytingar sem við erum hér að ræða nær einnig til öryrkja — hafa beðið lengi eftir bótum og bættum kjörum. Þar sem hér hefur verið vísað til samkomulags eldri borgara sem tók gildi í júlí í sumar verð ég að taka undir orð þeirra sem hafa minnst á eftirfylgni þess samkomulags að aldraðir telja að sá árangur sem náðist með því samkomulagi sem gert var, eða yfirlýsingu, sé eingöngu skref í þá átt sem telja megi að full sátt geti ríkt um, þ.e. að kjör aldraðra séu bætt með þeim hætti að mannsæmandi sé.

Í fyrirliggjandi frumvarpi og með þeim breytingum sem á að gera er vissulega komið til móts við bæði þetta samkomulag og eins það sem hér hefur margsinnis verið tekið fram, og óskað eftir í sölum hins háa Alþingis, að reyna að einfalda með öllum ráðum þann lagaramma sem lýtur að almannatryggingum og greiðslum til lífeyrisþega. Það er gert að hluta til núna, og er það vel. Það ber að þakka það sem er jákvætt og það er einföldun í þessu frumvarpi þó að ég og aðrir stjórnarandstæðingar telji að hér sé ekki nógu langt gengið.

Hvað varðar upphæðir og breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu taka þær ekki gildi nema að hluta til núna um næstu áramót og á næsta ári. Þetta eru breytingar í 1. gr. laganna, breytingar sem vísað er til ársins 2010. Ég tel að þau skref sem tekin eru til að ná markmiðum frumvarpsins séu allt of hæg og allt of smá. Það liggur á að bæta kjör aldraðra. Það liggur á að hækka grunnlífeyrinn og tekjutrygginguna eins og hún birtist í frumvarpinu þar sem búið er að slá saman og einfalda tekjutryggingu og tekjutryggingarauka. Það þarf að hafa ákveðið frítekjumark og það þarf að koma því á strax en ekki eftir tvö ár eins og lagt er til, þ.e. að þá megi tekjur aldraðra og öryrkja vera 200 þús. á ári og árinu seinna heilar 300 þús. kr. Þetta eru allt of lágar upphæðir. Það segir sig sjálft. Ef fólk er úti á vinnumarkaðnum og getur unnið er það ákaflega lítið og lágt hlutfall í atvinnuþátttöku ef við miðum við svo lágar upphæðir sem eru lausar við allar skerðingar. Fólk horfir auðvitað til þess að geta unnið og greitt af launum sínum skatta án þess að vera þar fyrir utan með skerðingarákvæði. Og 200 þús. kr. eftir tvö ár og 300 þús. kr. eftir þrjú ár er að mínu mati bæði of fjarri í tíma og of lágar upphæðir. Þetta tel ég að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd muni fara vel yfir með þeim gestum og fulltrúum frá Félagi eldri borgara og öðrum sem nefndin mun kalla á sinn fund.

Eins og hér hefur komið fram í ræðum hæstv. ráðherra og hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur liggja að baki þeim tölum sem fram koma miklir útreikningar, bæði í þessu frumvarpi til laga og eins í tillögu til þingsályktunar um nýja framtíðarskipun lífeyrismála sem stjórnarandstaðan öll lagði fram saman í upphafi þings, á þingskjali 3, 3. mál. Það er ekki einfalt mál að sjá fyrir samspil lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og eins greiðslur úr lífeyrissjóðum og aðrar tekjur og átta sig á því hvaða áhrif skerðingarákvæði hafa og hvaða áhrif samlagning þessara tekna hefur og taka síðan ákvörðun um það hvaða tekjugreinar skuli vera undanþegnar skerðingarákvæðinu. Ég vil leyfa mér að taka undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals um að líka eigi að skoða hvort þá séu ekki fleiri tekjustofnar sem eigi að vera undanþegnir þessum skerðingum.

Ég vísa til þess að þar sem frumvarpið er byggt á yfirlýsingu Landssambands eldri borgara með fulltrúum ríkisstjórnarinnar frá því í sumar telja eldri borgarar að þetta sé eingöngu skref, það hafi ekki verið hægt að komast lengra. Ég ítreka það að þó að þessu skrefi hafi verið náð verður að vera stöðugt samráð í gangi á milli ríkisvaldsins og fulltrúa eldri borgara. Það borgar sig fyrir alla að hafa náið samstarf, fylgjast vel með þróun mála og grípa þá frekar fyrr inn í en þegar allt er komið í óefni eins og ég tel að það sé í rauninni í dag. Allt of margir aldraðir búa við mjög skert kjör og raunar mjög skert lífsgildi — (Gripið fram í: Lífsgæði.) lífsgæði. Ekki má nú gæðin vanta, er það sem ég ætlaði að segja. Lífsgæði, eingöngu vegna þess að eldri borgarar hafi ekki fjárhagsleg ráð til að veita sér það sem okkur flestum finnst eðlilegt að geta veitt sér og meira að segja hafa sumir ekki möguleika á að gefa jólagjafir eins og flestum er þó svo mikilvægt, að geta glatt sína nánustu.

Þegar svo er komið er okkar íslenska þjóð orðin aum, að standa svo illa við bakið á þeim sem aldraðir eru. Þannig er nú því miður komið fyrir um það bil einum þriðja af þeim sem eru aldraðir í dag. Sem betur fer hafa mjög margir það gott og geta veitt sér nánast það sem þá lystir en því miður ekki allir og við eigum að horfa á þá sem minna mega sín og hafa ekki þær tryggu tekjur sem í raun og veru þarf til að hafa fyrir framfærslu.

Þá óska ég eftir því að í vinnu heilbrigðis- og trygginganefndar verði farið í skoðun á neysluþörf og neysluútgjöldum aldraðra. Það þarf að fara fram vönduð neyslukönnun á útgjöldum aldraðra. Þau eru önnur en þeirra sem yngri eru. Það er annað neyslumunstur. Það eru minni útgjöld á ýmsum sviðum en líka meiri á öðrum, t.d. eykst lyfjakostnaður oft á efri árum. Hið sama á við um þörf á heilbrigðisþjónustu, hún eykst líka. Þar sem ýmis gjöld hafa hækkað og lyf líka er ekki hægt að setja aldraða beint undir meðalneysluþörf Íslendinga. Það þarf að skoða sérstaklega.

Því tel ég að ef núna á, með nýrri reglugerð um endurgreiðslu á lífeyrisgreiðslum og innheimtu á ofgreiddum lífeyri, að fara mildilega í að ganga svo nærri fólki með endurkröfu á ofgreiddum lífeyri að fólk hafi tekjur til framfærslu — ef ég skildi hæstv. ráðherra rétt, ég hef ekki séð þessa reglugerð — verðum við að vita hver þessi framfærslugrunnur er. Ég óttast að viðmiðið í dag sé allt of lágt. Þetta er það sem við verðum að skoða og gera það í nefndinni.

Ég fer auðvitað fram á það líka að þetta frumvarp sem við fjöllum um hér og tilefni þingsályktunarinnar um nýja framtíðarskipan lífeyrismála sem stjórnarandstaðan flutti hér á fyrstu dögum þingsins fari saman í umræðu og í afgreiðslu í gegnum heilbrigðis- og trygginganefnd. Eins mælist ég til að samhliða verði rætt frumvarp um Framkvæmdasjóð aldraðra þannig að við náum aðeins betri heildarmynd. Þingsályktunartillaga stjórnarandstöðunnar gengur lengra. Stjórnarandstaðan er með aðra sýn. Sú þingsályktunartillaga byggir á því að komið verði á afkomutryggingu sem byggir þá á úttekt á neysluútgjöldum aldraðra og að þessi nýja tekjutrygging aldraðra verði 85 þús. kr. og öryrkja 86 þús. kr. á mánuði. Þessi breyting á að taka gildi núna 1. janúar 2007, sem sagt 6 þús. kr. hærri en gert er ráð fyrir í því frumvarpi sem hér er lagt fram. Þar á strax að taka upp frítekjumark og það á að verða 75 þús. kr. á mánuði frá 1. janúar 2007.

Það er þessi áherslumunur í þingmálunum og ég tel að tillaga stjórnarandstöðunnar sé miklu nær því að vera raunsönn en það frumvarp sem við fjöllum hér um í dag. Ef við reynum að ná einhverjum meiri heildarsvip á afgreiðslu þessara mála tel ég að heilbrigðis- og trygginganefnd verði að skoða þetta með opnum huga og vera tilbúin til að taka þá skrefið lengra en gert er í frumvarpinu með tilliti til þess sem raunveruleikinn segir okkur.

Í samkomulaginu var einnig tekið tillit til þjónustuþátta og það á að koma til meiri heimaþjónusta fyrir aldraða. Þá vil ég benda hæstv. heilbrigðisráðherra, hv. heilbrigðisnefnd og fjárlaganefnd þingsins á að sannarlega þarf að bæta tekjustofna sveitarfélaganna til að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru í dag, ekki bara af öldruðum, heldur heilbrigðisþjónustunni, félagsþjónustunni og samfélaginu í heild sem lítur þjónustu við aldraða allt öðrum augum en gert hefur verið. Það er krafa um að auka heimaþjónustuna á öllum sviðum, bæði heilsugæslu og félagslega þjónustu. Til þess að hægt sé að standa við þessi góðu markmið verða sveitarfélögin að hafa hærri tekjustofna. Það er eitt af því sem við verðum að horfa til.

Ég ætla ekki hafa þessi orð miklu fleiri en það þarf að hækka frítekjumarkið. Það þarf að komast á strax. Það þarf að hækka vasapeninga fyrir þá sem dveljast inni á stofnunum. Það þarf, eins og ég sagði, að skilgreina neysluútgjöld lífeyrisþeganna af svo mörgum ástæðum. Það verður að rjúfa að fullu tengsl lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka. Þó svo að dregið hafi úr þessum tengingum eru þær til trafala. Hver einstaklingur er sjálfstæður einstaklingur og ég tel að þessum mun eigi þá að ná með skattgreiðslum. Við eigum að falla algjörlega frá þessum tekjutengingum við maka eins og þær eru settar upp í dag.

Ég geri mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að þetta er nokkuð flókið mál að fara í og margir hafa á því skoðun hvernig þessum málum eigi að vera fyrirkomið. Ég tel að hv. heilbrigðis- og trygginganefnd þurfi að kalla til og fá umsagnir margra aðila til að fara yfir þetta mál og ég treysti því að við náum að afgreiða það fyrir jól. Nokkur atriði eiga að taka gildi um áramótin og þó svo að allt of mörgum sé vísað inn í framtíðina, alveg til ársins 2010, á hægt og sígandi að auka réttindi og bætur sem í þessu frumvarpi felast.

Ég vona að heilbrigðisnefnd verði tilbúin til að hlusta á raunsannar lýsingar eldri borgara og hvar skórinn kreppir og að ekki þurfi að bíða í fjögur ár eftir nýju samkomulagi og hafa kraumandi óánægju meðal þessara einstaklinga. Við höfum hérna tækifæri til að ganga lengra en frumvarpið segir til um og ganga hraðar til verks en þau stuttu spor sem hér eru tekin. Það sem hér er gert er þó til bóta en það þarf, hæstv. forseti, að ganga miklu lengra.