133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[17:29]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér var að ljúka ræðu varaformanns heilbrigðis- og trygginganefndar, hv. þm. Ástu Möller, og verðum við þá að líta á hana sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umræðunni. Því ef við gætum allrar sanngirni getum við varla litið á hv. þm. Pétur Blöndal sem fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í umræðu um þessi mál þó hann hafi verið óvenju hófstilltur í málflutningi áðan.

Ég vil því nota tækifærið og spyrja fulltrúa Sjálfstæðisflokksins nokkurra spurninga hér í stuttu andsvari. Fyrst er það varðandi yfirlýsinguna sem gerð var milli ríkisins og Landssambands eldri borgara. Hefur hv. þm. Ásta Möller ekki orðið vör við óánægju eldri borgara varðandi þá yfirlýsingu hvernig staðið var að því að fá hana samþykkta, eða á ég kannski að segja ergelsi eldri borgara, eins og hv. þingmaður notaði nokkrum sinnum í ræðu sinni?

Annað sem mig langar að fá að vita er hvort hv. þingmaður er tilbúin til að beita sér fyrir því, sem varaformaður í heilbrigðis- og trygginganefnd, að frítekjumarkið verði tekið upp mun fyrr en gert er ráð fyrir í frumvarpi ráðherrans og það verði hækkað. Því hv. þingmaður fór yfir kostnaðinn við það að setja á frítekjumarkið eins og talað er um að gera árið 2009 — sem mér finnst nú hálfgerður brandari að vera að tala um að setja þetta á árið 2009 — að við þessar 200 þús. kr. eða tæplega 17 þús. kr. á mánuði væri kostnaðurinn 142 milljónir fyrir ríkissjóð. Það er væntanlega brúttókostnaður því nettókostnaður verður annar þegar veltuáhrifa gætir því þess má vænta að eldri borgarar noti þessa aura til að kaupa þjónustu og borgi virðisaukaskatt o.s.frv.

Er hv. þingmaður tilbúin að beita sér fyrir því að þetta gerist fyrr og þetta verði hærri upphæð? Því ég vil benda hv. þingmanni á að 142 milljónir, sem er nú kostnaðurinn á ársgrundvelli við þetta, er rétt rúmlega það sem tekjur ríkissjóðs jukust á hverjum degi á þessu ári umfram áætlanir. 110 milljónir komu í ríkiskassann umfram áætlanir ríkisins á hverjum einasta degi á þessu ári samkvæmt fjáraukalögum sem hér eru til umræðu. Því spyr ég hv. þingmann: Er ekki rétt að leiðrétta þennan brandara varðandi frítekjumarkið árið 2009?