133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

almannatryggingar og málefni aldraðra.

330. mál
[18:46]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi vakti athygli mína að hæstv. ráðherra kaus að svara ekki spurningu minni um hvort hæstv. ráðherra kannaðist við að þjónustuþátturinn í samkomulaginu við Landssamband eldri borgara hefði verið notaður til að kúska eldri borgara til að skrifa undir.

Hæstv. ráðherra hafði mörg góð orð um þá aðferðafræði sem notuð er í samstarfi við eldri borgara. Ég get tekið undir það að auðvitað á ríkisstjórn á hverjum tíma að eiga samstarf við félagsskap eins og Landssamband eldri borgara, vera með samráð og samvinnu eins og hæstv. ráðherra kallaði það.

En þegar fulltrúar eldri borgara mæta að samráðs- og samningsborðinu eiga þeir ekki að mæta hæstv. ráðherra þar til að semja um grunnþarfir sem samkvæmt lögum eiga að vera fyrir hendi. Eldri borgarar eiga ekki að þurfa að semja um það að ef skortur er á hjúkrunarheimilum fyrir sjúka aldraða þá þurfi að semja um að þau skuli byggja og þörfinni sinnt. Eldri borgarar eiga heldur ekki að þurfa að semja um það ef þörf er á öflugri heimahjúkrun fyrir aldraða. Að nota það sem skiptimynt í samningum við eldri borgara er fráleitt. Þið getið fengið hjúkrun á stofnun eða heima ef þið samþykkið að við förum þessa leið í lífeyriskerfinu. Er hæstv. ráðherra er að segja okkur að slík aðferðafræði sé góð?