133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar.

232. mál
[19:07]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegsráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar og eru þær aðallega vegna viðurlaga eins og fram kom í ræðu hæstv. ráðherra. Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem ég hnaut um og mig langar að ræða núna við 1. umr.

Í 1. gr. er talað um að Fiskistofu sé heimilt „að fenginni umsögn hafnaryfirvalda á löndunarstað, að veita einstökum aðilum leyfi til að vigta afla, enda hafi hann áður verið veginn á hafnarvog“. Í þessu sambandi velti ég fyrir mér, af því að ég fann það ekki í athugasemdunum, hvor vigtin væri í raun hin opinbera vigt og yrði notuð við útreikning á kvóta eða hversu mikið vigtin mundi gilda í kvóta. Er það fyrri vigtin á hafnarvoginni eða seinni vigtin sem aðilar geta fengið að vigta með sérstöku leyfi?

Annað sem ég velti fyrir mér er varðandi það sem kemur fram í 2. gr. um breytingu á 15. gr. laganna og að þar bætast við orðin „eða reglum settum samkvæmt þeim“, þ.e. „Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara“ og svo er bætt við orðunum „eða reglum settum samkvæmt þeim.“

Ég sé ekki betur þegar ég renni í gegnum þennan bandorm sem við getum kallað svo, því að hér er verið að breyta nokkuð mörgum lögum, að verið sé að setja þetta inn í fleiri lög og því tel ég ástæðu til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hér sé í raun verið að útvíkka leyfi Fiskistofu frá því sem nú er til ýmissa viðurlaga, ekki bara á grundvelli laganna heldur líka á grundvelli reglna sem settar eru samkvæmt lögunum, reglna sem aldrei koma inn í sali Alþingis og við munum aldrei geta fjallað um heldur eru eingöngu settar af hæstv. sjávarútvegsráðherra. Því veltir maður fyrir sér hversu langt á að vera hægt að ganga í að svipta menn leyfi til að stunda atvinnu á grundvelli reglna sem ekki hafa fengið staðfestingu á Alþingi.

Annað sem vekur athygli mína, og ég er reyndar sammála um að fara þurfi þá leið, er að fyrir einhvers konar minni háttar brot, jafnvel vangæslubrot, þurfi ekki alltaf að svipta menn leyfum eða vera með harðar refsingar heldur geti a.m.k. í fyrsta skipti verið ástæða til að útgerð fái skriflega áminningu frá Fiskistofu. En þá hnýt ég um skilgreininguna á minni háttar broti, hvert er það? Ég get ekki séð að þetta sé afskaplega góð lína fyrir Fiskistofu til að vega og meta hvort brot sé minni háttar eða meiri háttar.

Í athugasemdum við einstakar greinar frumvarpsins segir um 2. gr., með leyfi forseta:

„… að þegar um minni háttar brot er að ræða og hlutaðeigandi útgerð hefur ekki áður gerst brotleg við ákvæði laganna eða reglur settar samkvæmt þeim skuli Fiskistofa bregðast við með öðrum og ekki eins íþyngjandi hætti, þ.e. með því að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot telst vera að ræða, í skilningi þessara lagaákvæða, er eðlilegt að litið verði m.a. til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnar og hvort það hefur verið framið af ásetningi eða gáleysi.“

Hvað er umtalsverður ávinningur? Hvað eru mikilvægir hagsmunir? Mér sýnist að með þessu orðalagi í lagatextanum eða athugasemdum við einstakar greinar sé verið að setja í hendurnar á Fiskistofu ansi mikið vald til að vega og meta og ákveða, kannski eftir geðþótta hverju sinni, hvort um umtalsverðan ávinning sé að ræða, hvort mikilvægum hagsmunum sé ógnað og hvort kalla á brotið minni háttar eða ekki minni háttar. Hvar liggja mörkin? Það er mikill munur á því, ef um brot er að ræða, fyrsta brot, hvort eingöngu er um að ræða skriflega áminningu eða sviptingu á leyfum jafnvel til margra vikna.

Ég hef orðið vaxandi áhyggjur af því hvaða valdi Fiskistofa getur beitt. Ég sé ekki betur, þegar við förum í gegnum þetta frumvarp, en að í höndum Fiskistofu sé vald sem vandséð er að við sjáum í höndum annarra sem framfylgja lögum. Það virðist vera að Fiskistofa sé lögreglan sem verður vör við það að brot sé framið, hún er rannsakandinn sem rannsakar brotið, lögregla er kannski kölluð til að einhverju leyti en þá er í flestum tilvikum verið að tala um refsiábyrgð samkvæmt hegningarlögum. En hvað varðar það að ákveða hvort svipta skuli leyfi eða beita viðurlagaákvæðum þá er það Fiskistofa ein sem virðist hafa það vald að ákveða eftir eigin rannsókn að hægt sé að beita viðurlögum. Hún ákveður hversu hörð viðurlögin séu, því að nú á hún að fara að ákveða hvort þetta sé minni háttar brot eða ekki, reyndar eru viðurlagaákvæðin mishörð. Hún getur beitt tiltölulega vægum ákvæðum og hún getur líka beitt tiltölulega hörðum ákvæðum þannig að hún virðist ákveða það sjálf. Þau taka þegar gildi og réttarstaða þess sem fyrir verður er sú að hann getur áfrýjað til ráðherra eða farið með málsatvik fyrir dóm en það frestar ekki því að ákvörðun Fiskistofu taki gildi.

Mér sýnist oft og tíðum að í þessu sambandi sé um það að ræða að menn séu dæmdir sekir og þurfi síðan að ganga í gegnum ferli til að sanna sakleysi sitt. Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðherra gæti aðeins tjáð sig um þetta, hvort hér sé um einhvern misskilning að ræða hjá mér eða hvort þetta sé þannig að Fiskistofa hafi þetta vald og geti í raun ákveðið viðurlög við brotum án þess að sá sem fyrir verður geti á nokkurn hátt komið að einhverjum vörnum í gegnum hefðbundin kerfi eins og við höfum, annaðhvort með áfrýjun til ráðherra eða til dómstóla, vegna þess að það virðist eins og viðurlögin taki alltaf gildi um leið og Fiskistofa ákveður slíkt. Við vitum hvernig hlutirnir ganga fyrir sig í dómskerfinu ef menn vilja leita réttar síns. Menn verða því að fullu fyrir viðurlögunum sem Fiskistofa ákveður án þess að geta í raun borið hönd fyrir höfuð sér.

Síðan er spurningin um ítrekunaráhrifin, vegna þess að hér er víða talað um að ef um ítrekað brot sé að ræða séu annars konar viðurlög en í 4. gr. frumvarpsins segir:

„Áminningar, sviptingar veiðileyfa og afturkallanir vigtunarleyfa, sem ákveðnar eru skv. 15. og 17. gr. laga þessara eða 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skulu hafa ítrekunaráhrif í tvö ár.“

Með öðrum orðum að brjóti menn af sér í fyrsta skipti og geri það ekki aftur innan tveggja ára þá hafi menn hreint borð, ef ég skil þetta rétt, og mér þætti vænt um ef ráðherra gæti farið yfir það hvort svo sé.

Síðan eru það breytingar á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, og um þær er fjallað í 8. gr. þess frumvarps sem við ræðum nú. Þar er verið að bæta inn varðandi heimildir til að gera veiðarfæri skips upptæk orðunum „þar með talda dragstrengi“. Til að fá það á hreint, er verið að tala um togvíra og dragnótatóg í þessu sambandi? Eru það hinir svokölluðu dragstrengir? bara svo ég skilji þetta.

Ég óska eftir að fá svör við þessum einföldu spurningum, um vald Fiskistofu, um það að viðurlögin eru farin að gilda samkvæmt reglum sem ráðherra setur en ekki bara samkvæmt greinum í lögunum og eins um það hvaða vigt gildir og um ítrekunaráhrifin.