133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

breyting á ýmsum lögum á sviði fiskveiðistjórnar.

232. mál
[19:24]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hefur farið fram um þetta mál. Ég held að í raun og veru endurspegli frumvarpið ákveðna þróun sem hefur átt sér stað varðandi breytingar á lögum á sviði fiskveiðistjórnar sem lúta að viðurlagaákvæðum. Við tökum eftir því þegar við skoðum þessi mál nokkur ár aftur í tímann, ekki síst á vettvangi sjávarútvegsnefndar Alþingis, þá hefur verið tilhneiging í þá átt að reyna frekar að skipta fiskveiðilagabrotum í tvennt þannig að annars vegar væri um að ræða brot sem við getum kallað að séu brot af ásetningi, brot sem geta haft í för með sér heilmikil áhrif, og hins vegar brot sem verða til af allt öðrum ástæðum.

Við munum eftir því að það er ekki langt síðan Alþingi breytti lögum að frumkvæði hv. þm. Örlygs Hnefils Jónssonar til þess að koma í veg fyrir að menn væru skilyrðislaust undir þá sök seldir að fá á sig mjög harðan lágmarksdóm. Við höfum líka verið að breyta lögunum varðandi eftirlit með fiskiskipum að því leytinu að við settum inn á sínum tíma ákvæði sem gaf mönnum kost á því að leiðrétta stöðu sína, t.d. ef menn höfðu farið yfir í kvóta og fengu áminningu eða fengu athugasemdir frá Fiskistofu og höfðu þá tíma til þess að leiðrétta stöðu sína.

Ég held að þetta stefni í rétta átt og frumvarpið sem hér er verið að leggja fram er í raun og veru byggt á sömu hugmyndafræði. Vandinn er hins vegar sá sami með þessi lög sem önnur að þau verða að hafa í sér ákveðinn fælingarmátt, það verður að tryggja að þeir sem starfa innan sjávarútvegsins fari eftir lögum og reglum. Þó að við viljum koma til móts við menn með því að refsa þeim ekki fyrir minni háttar brot eða brot sem við getum kallað að séu framin af einhverju gáleysi, þá verðum við hins vegar líka að hafa lögin þannig að við tryggjum að menn geti ekki í krafti úrræðaleysis þeirra sem eiga að fylgjast með og hafa eftirlit með lögum um fiskveiðistjórn, haldið áfram brotum sínum. Við þekkjum dæmi um það úr fortíðinni þar sem menn spiluðu bókstaflega á að reyna að halda áfram ítrekuðum brotum á fiskveiðistjórn, ná sér þannig í kvóta með ólögmætum hætti og auðvitað er ekki hægt að hafa lögin þannig.

Þess vegna er það þannig að þegar menn verða uppvísir að því að brjóta lög og reglur þá verðum að hafa það úrræði fyrir eftirlitsaðilann, sem í þessu tilviki er Fiskistofa, til að geta gripið inn í tafarlaust. Það er ekki hægt að bíða vikum eða mánuðum saman eftir því að dómstólar útkljái slíkt heldur verður það að vera þannig að eftirlitsaðilinn hafi þarna möguleika á að skerast í leikinn. Síðan geta menn þá, ef þeir telja á sér brotið, bæði vísað þeim úrskurði til ráðuneytisins og síðan til dómstóla, ef þannig vill verkast.

Það má segja að þetta sé kannski hið stóra og vandasama verkefni, þ.e. að reyna að finna eitthvert jafnvægi þarna á milli. Það er alveg rétt sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði, að sjávarútvegurinn býr á margan hátt við býsna flókið lagaumhverfi. Það sem vakir fyrir okkur með þessu frumvarpi er að reyna að gera það aðeins einfaldara á þessu sviði og líka að gæta samræmis. Það hefur oft heyrst og kemur mjög oft fram þegar rætt er við menn sem starfa í sjávarútveginum að fólki finnst ekki vera nógu mikið samræmi í viðurlagaákvæðinu. Það sé verið að refsa mönnum hart fyrir tiltölulega lítil brot og síðan geti menn haldið áfram og fái þá ekki mikla refsingu til viðbótar við það sem áður hafði verið ákveðið. Þarna er verið að reyna að gera þessu einhver skil.

Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði út af fyrir sig réttmætrar spurningar, hvort ekki þyrfti að skilgreina hugtökin „minni háttar brot“ og „umtalsverð brot“ og þau hugtök sem hérna eru notuð. Það er reynt að gera það í athugasemdunum við frumvarpið en vel má vera að það þyrfti að reyna að skýra þetta betur, það er verkefni sem ég vildi þá beina til hv. sjávarútvegsnefndar að fara aðeins betur ofan í. Við yfirferð okkar í þessum efnum sáum við ekki að hægt væri að skýra þetta mikið betur en þarna er gert.

Í athugasemdum við a.m.k. tvær greinar er sagt, með leyfi virðulegs forseta:

„Við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot telst vera að ræða, í skilningi þessara lagaákvæða, er eðlilegt að litið verði m.a. til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnar og hvort það hefur verið framið af ásetningi eða gáleysi.“

Þarna er auðvitað verið að búa til ákveðna leiðsögn en ég get vel viðurkennt að hún er á vissan hátt matskennd en það er líka nokkuð erfitt að negla þetta niður, brotin geta verið af mismunandi toga og aðstæður verið mismunandi þannig að það er kannski dálítið erfitt að setja slíkar reglur mikið skýrari. Þetta er hins vegar verkefni sem ég held að væri eðlilegt að sjávarútvegsnefnd velti fyrir sér, t.d. með því að ræða við hagsmunaaðila og aðra þá sem geta látið sig svona mál varða.

Um hafnarvogina og endurvigtunina vil ég eingöngu segja að þarna er ekki verið að breyta neinu, þetta frumvarp breytir neinu í þeim efnum. Þær reglur sem um það gilda eru reglur sem hafa verið í gildi og það er ekki verið að taka afstöðu til þess í frumvarpinu á nokkurn hátt.

Hv. þm. Jón Gunnarsson spurði mig líka varðandi frumvarpstextann t.d. þar sem talað er um að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi ef þau brjóta gegn ákvæðum þessara laga eða reglum settum samkvæmt þeim, hvort þarna sé verið að útvíkka vald Fiskistofu. Svo er ekki. Hérna er eingöngu verið að vísa til þess að á grundvelli þessara laga verði sett reglugerð sem líka hafi þá virkni að verði menn uppvísir að brotum á grundvelli laganna og reglugerðarinnar sem er sett á grundvelli þeirra skuli farið með það mál eins og frumvarpið mælir fyrir um. Það er því ekki verið að útvíkka vald Fiskistofu, alls ekki, heldur eingöngu verið að vísa til þess að þetta gæti bæði tekið til brota sem snúa að frumvarpinu og síðan reglugerð sem auðvitað verður að hafa stoð í lögum sem verði þá sett á grundvelli frumvarpsins ef það verður að lögum, sem ég vona að verði.

Hv. þingmaður spurði líka um ítrekunaráhrifin. Það er alveg rétt sem hann sagði, þessi ítrekunaráhrif gilda þennan tíma. Ef menn hafa síðan ekki orðið brotlegir við lögin á þeim tíma má segja sem svo að þeir sitji við hreint borð eftir það. Þetta er grundvöllurinn að frumvarpinu. Það er fyrst og fremst verið að reyna að milda áhrifin gagnvart þeim sem verða fyrir því að brjóta reglur eða lög og um er að ræða tiltölulega væg brot og brot í fyrsta skipti o.s.frv.

Þarna er verið að reyna að koma til móts við þetta sanngirnissjónarmið, hygg ég, sem menn hafa viljað og ég tel að sé mikilvægt að sé uppi í fiskveiðistjórnarumhverfinu vegna þess að við eigum ekki að líta þannig á — eins og stundum hefur jaðrað við í umræðunni, ég er ekki að segja hér á Alþingi, en stundum jaðrar við í umræðunni að menn líti svolítið þannig á að þeir sem starfa í sjávarútveginum séu sífellt að reyna að komast hjá því að fara eftir lögum og reglum. Það er ekki þannig. Það eru hins vegar stundum þannig aðstæður að mönnum verður á, það geta verið ýmsar ástæður sem valda því, og þarna er þá verið að reyna að draga einhver skil á milli þeirra sem eru með — eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson orðaði það áðan — einbeittan brotavilja og hinna sem fyrst og fremst svona detta um einhver ákvæði sem þeir gera sér kannski ekki alveg grein fyrir hvernig virka.

Þetta mál er af þeim toga að eðlilegt er að það fái þá meðferð í sjávarútvegsnefnd eins og almennt tíðkast, að því verði vísað til umsagnar og að kallað verði eftir sjónarmiðum utanaðkomandi aðila. Ég held að mál af þessu tagi vinnist best með þeim hætti. Það er rétt sem hér hefur verið sagt að ég setti niður nefnd til þess að fara yfir þessi mál, skipaða fulltrúum ráðuneytisins, Fiskistofu og hagsmunaaðila, og það var auðvitað kallað eftir viðhorfum úr greininni í þeim efnum. Eflaust eiga eftir að koma fram ýmsar ábendingar sem hægt verður að taka tillit til og afstöðu til í meðferð málsins á þinginu.