133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[19:34]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 79 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

Í þessu frumvarpi er lagt til að gerðar verði tvær breytingar á lögunum. Fyrri breytingin lýtur að því að kveða með skýrum hætti á um heimild til að samræma reglur um nýtingu á íslenskum deilistofnum, hvort sem veiðar fara fram í íslenskri fiskveiðilögsögu eða utan hennar. Jafnframt verði heimilt að skilgreina nákvæmar með hliðsjón af veiðisvæði, veiðarfæri eða tíma hvenær um veiðar úr tilteknum deilistofni telst vera að ræða. Síðari breytingin miðar að því að styrkja heimildir ráðherra til að friða viðkvæm hafsvæði í því skyni að vernda fyrst og fremst hafsbotninn sjálfan og það líf sem á honum þrífst.

Um stjórn veiða hér við land gilda að meginefni lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, lög nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lög nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Á grundvelli þessara laga eru settar ýmsar reglur um veiðar íslenskra skipa, t.d. veiðarfæri, veiðisvæði, meðferð og nýtingu afla og atriði sem lúta að eftirliti með nýtingu þeirra.

Lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og lög nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, taka til nýtingar á nytjastofnum innan fiskveiðilandhelgi Íslands, en lög nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, taka til veiða íslenskra skipa utan fiskveiðilögsögunnar. Í athugasemd við 5. gr. frumvarpsins sem varð að lögum nr. 151/1996, um veiðar utan lögsögu Íslands, segir að ákvæði laga um stjórn fiskveiða gildi eftir því sem við geti átt um veiðar íslenskra skipa utan íslensku lögsögunnar úr íslenskum deilistofnum, þ.e. stofnum sem veiðast bæði innan og utan lögsögumarkanna, þar sem mjög æskilegt er að samræmd stjórn gildi um veiðar úr deilistofnum hvort sem þær fara fram innan eða utan lögsögu. Þannig hafi þessu verið varið með nýtingu loðnustofnsins fram til þessa. Þar hefur kvóta verið úthlutað til skipa án tillits til þess hvort hann er veiddur innan eða utan lögsögumarka og gilda allar sömu reglur um veiðarnar án tillits til þess hvar þær fara fram. Ofangreind tilvísun í 5. gr. laga nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, í lög um stjórn fiskveiða leggur að vísu meginreglur í þessu efni en hins vegar er það svo að ýmsar reglur um veiðar og nýtingu deilistofna eru settar með stoð í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Þess vegna þykir rétt að kveða með ótvíræðum hætti á um að heimilt sé að tryggja samræmingu reglna um veiðar úr íslenskum deilistofnum þannig að ekki gildi mismunandi reglur eftir því hvort veiðar fari fram innan eða utan fiskveiðilandhelginnar og miðar fyrri málsliður greinarinnar að því. Í seinni málslið 1. gr. frumvarpsins er lagt til að heimilt sé að ákveða að afli sem fæst á ákveðnu svæði, tilteknum tíma eða í ákveðna gerð veiðarfæra skuli teljast til tiltekins deilistofns. Eins og áður segir eru deilistofnar þeir stofnar sem veiðast bæði innan og utan lögsögunnar. Nokkuð er breytilegt hvar þeir veiðast innan lögsögunnar og í hve miklum mæli. Má í þessu sambandi nefna t.d. kolmunna, úthafskarfa og loðnu. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa heimild til að skilgreina veiðisvæði hverju sinni og jafnframt hafa möguleika til þess að líta til tíma og veiðarfæra í þessu sambandi.

Í október 2004 skipaði þáverandi sjávarútvegsráðherra nefnd til að kanna forsendur fyrir friðun viðkvæmra hafsvæða. Nefndin skilaði tillögum sínum í lok maí 2005. Nefndin skoðaði þau friðunarsvæði sem hafa verið sett hér við land og forsendur þeirra. Má almennt segja að flest friðunarsvæði í fiskveiðilandhelgi Íslands séu sett með heimild í 9. gr. laga nr. 79/1997 en tveir fyrri málsliðir 1. mgr. hennar hljóða svo:

„Ráðherra skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að sporna við því að stundaðar séu veiðar sem skaðlegar geta talist með tilliti til hagkvæmrar nýtingar nytjastofna. Getur ráðherra með reglugerð m.a. ákveðið sérstök friðunarsvæði þar sem veiðar með tilteknum veiðarfærum eru bannaðar.“

Nefndin taldi að friðun svæða hefði fyrst og fremst verið beitt til að ná sértækum markmiðum í fiskvernd, eins og t.d. verndun hrygningarfisks eða ungfisks. Á undanförnum árum hefði athyglin beinst í ríkari mæli að hafsbotninum sjálfum og lagði nefndin því til í skýrslu sinni að breytingar yrðu gerðar á heimild ráðherra þannig að verndun hafsbotnsins fengi meira vægi og rúmaðist betur innan lagaheimildarinnar. Með því móti mundi hún endurspegla skýrar markmið og inntak friðunar viðkvæmra hafsvæða. Breyting sú sem lögð er til í a-lið 1. gr. er í samræmi við þessa tillögu nefndarinnar.

Með breytingu þeirri sem lögð er til í frumvarpinu er aðeins verið að árétta að unnt er að láta friðun taka til allra veiða þannig að ekki þurfi að telja þær allar upp í reglugerð ef bannið á að vera altækt.

Ég legg svo til að þessu máli verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjávarútvegsnefndar.