133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[20:34]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vitaskuld hafði ekki sjávarútvegsráðherra eða ráðuneytið frumkvæði að því að opna þetta hólf. Það voru skipstjórnarmenn og sjómenn og útvegsmenn sem höfðu samband og bentu á að þarna væri um að ræða verðmæta síld sem ekki væri hægt að ná í nót, sem ekki væri hægt að nálgast öðruvísi og óskuðu eftir því að flottrollsveiðar yrðu heimilaðar.

Ég neitaði því að heimila flottrollsveiðar alveg opið. Ég tók þá ákvörðun eftir að hafa íhugað málin býsna vel. Ég var ekkert sérstaklega fljótur að verða við þessari ósk, heldur tók mér þann tíma sem ég taldi mig þurfa til að fara aðeins yfir þessi mál. Eftir að ég hafði skoðað það var það niðurstaða mín að heimila að gera svona prufu að nóttu til þegar menn töldu að síldin lyfti sér frá botninum og væri minnst hætta á því að menn skörkuðu í lífríkinu að öðru leyti. Það var gert.

Niðurstaðan varð sú sem við þekkjum. Eflaust er það rétt hjá hv. þingmanni að menn hafi vandað sig. Menn gerðu sér grein fyrir því að ef þeir vönduðu sig ekki yrði lokað á þetta svæði. Ég hef lýst því yfir að því yrði lokað eins og skot ef einhver brögð yrðu að því að öðruvísi væri gengið um það en til var ætlast.

Þess vegna er núna meira eftirlit með þessum veiðum en er almennt. Þarna er um að ræða mjög viðkvæman hlut. Niðurstaðan varð sú, eins og ég sagði áðan, að þarna væri um að ræða stóra og góða síld, mjög hreina veiði, nánast engan meðafla. Á þeim forsendum var þetta heimilað með mjög ströngu eftirliti.

Ég lýsti því líka yfir áðan í ræðu minni að vitaskuld horfir maður til þess þegar fram koma athugasemdir. Ég er ekki sá þvergirðingur að ég reyni ekki að skoða mál opnum huga þegar fram koma athugasemdir. En auðvitað verða menn að reyna að taka efnislega ákvörðun í svona efnum. Þar bera (Forseti hringir.) sjávarútvegsráðuneytið og ráðherrann auðvitað fulla ábyrgð.