133. löggjafarþing — 24. fundur,  9. nóv. 2006.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

236. mál
[20:37]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að þessi tilraun verði ekki endurtekin. Ég hef grun um að verði hún endurtekin muni menn komast að þeirri niðurstöðu mjög fljótlega að þannig fari fyrir síldinni sem þarna er eins og gerst hefur á öðrum miðum, það þýði ekkert að fara mjög oft þarna inn til að fá stóra síld í flottroll. Það er niðurstaðan fyrir nú utan aðrar þær deilur sem menn hafa uppi um önnur áhrif flottrollsveiða yfirleitt.

Mér finnst að lærdómurinn sem menn ættu að draga af þessari umræðu ætti að vera sá að þegar hæstv. ráðherra verður fyrir þrýstingi um að opna einhver ný svæði af þessu tagi leyfi hann mönnum að komast til þeirrar umræðu áður en hann tekur ákvarðanir. Það verði farið vel yfir þetta með þeim sem þekkja best til. Á þessu svæði finnst mér mjög ádeiluvert að slíkt hafi ekki verið gert vegna þess að þarna er einhver lengsta saga um friðun á hafsvæðum sem var að frumkvæði heimamanna og er búin að standa áratugum saman.

Þess vegna hefðu þeir sem um véla á þessu svæði átt að vera kallaðir til, ekki einn og einn í símann, heldur þar sem þeir hefðu fengið að hafa samráð sín á milli um það hvernig ætti að standa að þessum málum ef það hefði komið til greina.

Mín trúa er sú að þeir hefðu reyndar aldrei samþykkt þetta. Það hefði samt verið allt í lagi að ræða málin og sjálfsagt er að fara yfir þau með bæði fiskifræðingum og öðrum þegar svona hugmyndir koma upp en ekki taka ákvarðanirnar með þeim hætti sem gert var þarna, jafnvel þó að menn ætli að dunda við þetta að næturlagi.