133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:04]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég er svolítið hissa á því hvað hv. þingmanni virðist vera brugðið við það að hafa fengið upplýsingar um þessar lánsheimildir sem um er að ræða. Ég held að ekkert þessara mála sé nýtt af nálinni. Þetta eru mál sem hafa verið hér í umræðu um — ég ætlaði að segja lengri eða skemmri tíma, ég held reyndar í flestum tilfellum um lengri tíma. Þess vegna finnst mér ekkert skrýtið þótt fjárlaganefnd þyrfti ekki langan tíma til að afgreiða þessi mál til 2. umr.

Hins vegar finnst mér sjálfsagt, þingmannsins vegna og auðvitað allra annarra, að þá sé betur gerð grein fyrir þessu og að samningur eins og t.d. samningur vegna kaupa ríkisins á Landsvirkjun sé kynntur í nefndinni. Það eru auðvitað engin leyndarmál í þeim samningi. Ég held að öll meginatriði hans hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Þeir sem áhuga hafa á þessum málum og hafa fylgst með þeim eru sjálfsagt búnir að kynna sér þau. Það er alveg sjálfsagt að kynna þetta í nefndinni.

Varðandi önnur atriði er hið sama upp á teningnum, þau hafa verið til umfjöllunar og kynnt og nefnd í þingsölum, held ég flest, í einhverju samhengi. Ég held að það sé bara sjálfsagt að kynna þetta. Mér finnst engin ástæða fyrir hv. þingmann að hafa uppi stóryrði eða vera æsing um það. Við gerum þetta öll bara í góðri samvinnu á milli umræðna.