133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:12]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér ræðum við á morgun frumvarp til fjáraukalaga. Þetta málefni kemur þar til efnislegrar umfjöllunar og það sýnir okkur kannski hversu mjög þessi dagskrárliður er kominn út um víðan völl að við skulum vera að ræða þessa málsmeðferð stjórnarflokkanna sem eitthvert nýmæli eða stórmál. Því miður er það svo sannarlega ekki þannig. Svo sannarlega er það þannig að um langt árabil hefur fjárlaganefnd Alþingis verið notuð sem stimpilpúði fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann, og stjórnarþingmenn þar hafa ekki haft uppi neina tilburði til að stýra fjárveitingavaldinu sjálfir og engan metnað haft til þess. Það sem hv. þm. Jón Bjarnason upplýsir hér um vinnubrögðin í fjárlaganefnd á föstudaginn eru þess vegna engin nýmæli. Það er eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði um helgina: Fortíðin skiptir ekki máli, og það er gott fyrir Sjálfstæðisflokkinn, eins og hann sagði jafnframt. Við hljótum bara að treysta á orð hans hér um að nefndarmenn og þingmenn verði upplýstir almennilega um þessi verkefni. Ég held út af fyrir sig að þau tvö stóru mál sem hér eru séu ákaflega mikilvæg fyrir ríkissjóð. Ég held að allir sem kynna sér málin sjái að kaup ríkissjóðs á eignarhlut borgarinnar og Akureyrar í Landsvirkjun eru alger reyfarakaup. Landsvirkjun fæst á ákaflega lágu verði og ekki annað en sjálfsagt að fjárveitingavaldið hér afgreiði þau kaup.

Hins vegar er um það að ræða að efla og styrkja gjaldeyrisvaraforða landsins. Þegar menn horfa til þess hversu illa ríkisstjórnin heldur á efnahagsmálum, þá botnlausu ofþenslu sem hér er og það alvarlega ástand sem skapaðist á fjármálamarkaði fyrr á árinu er það þjóðarnauðsyn að ganga til þess að efla og styrkja gjaldeyrisvaraforða landsins. Ríkisstjórnin stendur ekki vaktina í efnahagsmálunum og krónan skoppar upp og niður í óðaverðbólgu (Forseti hringir.) og hæstu vöxtum í heimi.