133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:14]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Störf fjárlaganefndar hafa að öllu leyti verið mjög eðlileg. Menn hafa brugðist við hlutum eins og átti að gera. Að einu leyti var gerð athugasemd vegna þess að við höfðum ekki tíma til að fara í gegnum tillögur ríkisstjórnarinnar um heilbrigðismál og þess vegna áskildum við okkur rétt til að geyma þær til 3. umr.

Hitt voru hlutir sem vel var hægt að afgreiða. Það liggur fyrir að allar upplýsingar varðandi það verða lagðar fyrir þingmenn og það þarf enginn að vera í neinum vandræðum með það hvort þær komi deginum fyrr eða seinna. Það hefði verið betra kannski að fá þær á föstudaginn. En sannleikurinn er sá að fjárlaganefnd hefur því miður verið frekar illa mönnuð í haust vegna anna þingmanna við aðra hluti og þess vegna hafa ekki allir getað verið við, hvorki hv. þm. Helgi Hjörvar né aðrir. Það er bara sannleikurinn. Við vinnum þetta eðlilega. Það mun ekkert verða til vandræða. Þetta eru þjóðþrifamál eins og hv. þm. Helgi Hjörvar sagði. Við erum að reyna að styrkja hér gjaldeyrisforðann til þess að hann sé í réttu hlutfalli við þau viðskipti sem eiga sér stað núna. Við höfum meira en tvöfaldað viðskiptin og stærðina og því eðlilegt að gjaldeyrisforðinn sé í sama hlutfalli. Þess vegna erum við að gera þetta.

Það er líka rétt hjá honum að kaup ríkisins á Landsvirkjun eru mjög þarfur hlutur. Það var ákaflega óeðlilegt að Landsvirkjun væri að hálfu leyti í eigu Reykjavíkurborgar sem var í beinni samkeppni við aðra stofnun, Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta eru hvort tveggja hin mestu þjóðþrifamál, eðlilegt að þau komi fram og eðlilegt að fjárlaganefnd Alþingis veiti þeim brautargengi eins og hún getur.