133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:16]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Það sem er auðvitað ámælisvert í því sem við ræðum hér nú eru þau vinnubrögð sem viðhöfð eru í fjárlaganefnd, og það því miður ekki í fyrsta skipti. Það er því miður ekki bara þessi samningur varðandi kaup Landsvirkjunar á hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar sem ekki hefur verið lagður fram í nefndinni þrátt fyrir að búið sé að afgreiða fjármagn til hlutarins, heldur könnumst við líka við þetta varðandi samninginn sem gerður var vegna tónlistarhússins í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra hefur líka lofað því að sá samningur yrði lagður fram í nefndinni. Hann hefur ekki enn verið lagður þar fram. Hversu lengi þurfum við að bíða eftir samningnum hjá Landsvirkjun þrátt fyrir að hæstv. ráðherra lofi því að samningurinn verði lagður fram í nefndinni?

Það eru þessi vinnubrögð, frú forseti, sem ber að fordæma. Hv. þm. Birkir J. Jónsson hafði stór orð um það í haust að nú yrði breyting á í fjárlaganefnd frá því sem áður hefði verið. Þetta dæmi sýnir okkur, því miður, að meiri hlutinn í fjárlaganefnd er nákvæmlega eins stemmdur og áður. Stimpill skal það vera og stimpill skal það heita. Það er eingöngu notaður stimpill á það sem frá ríkisstjórninni kemur. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að það hefði verið betra að gögnin hefðu verið lögð fram á föstudag. Auðvitað hefði það verið betra, og miklu meira en það, það hefði verið sjálfsagt. Það hefði verið nauðsynlegt af þeirri einföldu ástæðu að meiri hlutinn er búinn að afgreiða málið út úr nefndinni þrátt fyrir að gögnin hafi ekki verið lögð fram.

Þetta eru auðvitað vinnubrögð sem eiga ekki að þekkjast hér. Ef við ætlum ekki að snúa af þessari leið vitum við það að fjárlögin verða ekki alvörupappír. Þannig er það auðvitað með fjáraukalögin líka, því miður. Það er kominn tími til að meiri hluti fjárlaganefndar átti sig á því hvert hlutverk nefndarinnar er.