133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

afgreiðsla fjáraukalagafrumvarps fyrir 2. umr.

[15:20]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég reyni eftir föngum að vinna störf mín samviskusamlega í fjárlaganefnd. Það var ég líka reiðubúinn að gera með þetta mál hér. Að koma inn með 120 milljarða og afgreiða á 10–15 mínútum án nokkurra gagna, án nokkurra upplýsinga, er ekki sæmandi, enda viðurkenndi hv. varaformaður fjárlaganefndar það. 2. umr. er efnisumræða um frumvarpið. Að ætla að vísa til þess að gögn komi inn, kannski, milli 2. og 3. umr. er út í bláinn. Við vitum ekki einu sinni hvaða gögn.

Þetta eru náttúrlega engin vinnubrögð.

Þess vegna beini ég því til hæstv. forseta, til að hér sé almennilegt vinnulag, að umræðu um þetta mál verði frestað, það verði tekið aftur inn í nefnd og unnið skikkanlega áður en það kemur hingað inn til þingsins.

Ég er ekki hér að ræða hina pólitísku hlið. Ég er að ræða það hvernig þingið, ríkisvaldið, ætlar að valta yfir bæði einstakar nefndir þingsins og síðan vinnuna á Alþingi sjálfu með því að tilkynna að þetta sé afgreitt og nefndin fái bara 10 mínútur til að stimpla það án nokkurra gagna á bak við. Það er t.d. fróðlegt að sjá eina og hálfa línu hér um 5 milljarða kr. viðbótarábyrgð vegna Kárahnjúkavirkjunar. Ein og hálf lína á að vera nægur rökstuðningur fyrir því að Alþingi verji 5 milljörðum kr. meira vegna óuppgerðs og óvænts kostnaðar við Kárahnjúkavirkjun. Við höfum ekki hugmynd um hvað stendur á bak við þessa tölu. Við höfum ekki hugmynd um hvort það vantar meira. Kannski vantar 10 eða 15. Við höfum ekki hugmynd um það.

Það er mjög eðlilegt að fjárlaganefnd fái gögn á bak við þessa tölu. Við köllum inn sjúkrahús sem kaupa 10 rúmum of mikið og veitum þeim tiltal ef þau hafa ekki átt 500 þús. kall fyrir þessu. (Forseti hringir.) En þegar það koma 120 milljarðar svona, þegar koma 5 milljarðar vegna viðbótar Kárahnjúkavirkjunar þarf engin gögn.

Frú forseti. Það á að senda (Forseti hringir.) þetta frumvarp til betri vinnslu í fjárlaganefnd.