133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingalög.

296. mál
[15:34]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Skýringin sem tilnefnd var í fyrra, þegar við ræddum um Landmælingar Íslands, á því hvernig stæði á því að lögin um Landmælingar Íslands pössuðu ekki við það frumvarp sem sjálfur hæstv. forsætisráðherra þá og nú aftur flytur, var sú að menn hefðu ekki fjármagn til að mæta þeim breytingum sem eðlilegar væru.

Þá vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra aftur: Er það af fjármagnsástæðum sem þær reglur sem gilda um Landmælingar Íslands eru ekki lagfærðar, ef við tölum sérstaklega um þær og ekki um Fasteignamat ríkisins og fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra og það fleira sem kann að vera í þessu og forsætisráðherra ætti auðvitað að telja hér upp? Er það af fjárhagsástæðum sem þetta er gert eða liggja einhverjar aðrar ástæður að baki?

Það er eðlilegt að spyrja forsætisráðherra að þessu, hann flytur þetta frumvarp og mælir fyrir því, og maður hlýtur að gera kröfu til þess að þegar um sérstakar undantekningar er að ræða frá meginhugsuninni í þessu frumvarpi, sem ég tel afar jákvæða og við samfylkingarmenn lýstum stuðningi við í fyrra, geti forsætisráðherra skilgreint nákvæmlega í hverju þessar undantekningar felast og af hverju þær stafa.