133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingalög.

296. mál
[15:39]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra svarar því til og ég vænti þess, frú forseti, að farið verði nákvæmlega ofan í saumana á því á hverju þessi aðgreining byggir.

Það er mjög mikilvægt að tengja það frumvarp sem hér liggur fyrir við málefni upplýsingasamfélagsins og þá fjármuni sem veittir eru í því skyni til rannsóknastofnana eins og þær sem hér um ræðir. Ég hrekk auðvitað við þar sem málið er mér skylt sem starfsmanni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ég veit að þar er safnað upplýsingum um hluti sem leynt eiga og leynt verða að fara og nægir að nefna fálkasetur eða arnasetur, staðsetningu á sjaldgæfum og friðlýstum plöntum og eitthvað slíkt. Ef með greinargerð sem þessari er hægt að fullyrða að sækja megi öll gögn til Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna þess að hún falli ekki, eins og til að mynda Hafrannsóknastofnun eða Íslenskar orkurannsóknir, undir e-lið 1. gr. þessarar tilskipunar, þá þurfa menn að koma með mjög ákveðnar skýringar og röksemdir fyrir því hvers vegna svo sé. Það er enginn eðlismunur á rannsóknum þessara stofnana, Veðurstofunnar eða Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar eða Íslenskra orkurannsókna. Ég vildi bara vekja athygli á þessu.