133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingalög.

296. mál
[15:41]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem við ræðum hér, um endurnot opinberra upplýsinga, var til talsverðrar meðferðar í allsherjarnefnd í fyrra. Þar fengum við t.d. á fund nefndarinnar Pál Hreinsson til að fara yfir frumvarpið og þá lagasmíð sem að baki því liggur og þá greinargerð sem með því fylgir og það reyndist mjög gagnlegt til að varpa ljósi á ýmsa þætti málsins, eins og t.d. þann sem hv. þingmaður vakti athygli á í andsvörum rétt áðan, sem skipta mjög miklu máli.

Páll varpaði ljósi á ýmis atriði í þessu máli, sem er mjög flókið og mikilvægt mál, þetta er grundvallarmál sem opnar aðgengi margra að opinberum upplýsingum. Það er mikil auðlind, það er hægt að vinna mikil verðmæti úr þessum gögnum og áríðandi, eins og meginmarkmið frumvarpsins lýtur að, að auka möguleika fyrirtækja og einkaaðila til að endurnota upplýsingar frá hinu opinbera og gera þeim kleift að hagnýta möguleika og stuðla að hagvexti og atvinnusköpun í víðasta skilningi þeirra orða. Það gerir málið svo sannarlega að mínu mati. Þessi breyting á upplýsingalögum er mjög tímabær og nauðsynleg og lýtur að því að opna stjórnkerfið fyrir hinum almenna borgara og rauði þráðurinn, og það sem liggur á bak við upplýsingalögin og stjórnsýslulögin sem sett voru á sínum tíma, er að gjörðir og ákvarðanir stjórnvalda þoli dagsins ljós og að þessar opinberu upplýsingar geti nýst fleirum en einungis opinberum aðilum. Það er ákaflega mikilvægt og það er auðlind sem opnast mörgum borgurum landsins og mörgum sjálfstætt starfandi fyrirtækjum og aðilum og mun örugglega skapa mikinn auð þegar fram í sækir og er mjög sjálfsagt að verði gert.

Þetta þarf að skoða vel í nefndinni, ekki síst með hliðsjón af þeirri ákvörðun sem tekin hefur verið, og sérstaklega í ljósi þeirra undantekninga sem eru frá svo víðtækum og gagngerum lagabreytingum sem þessari, eins og hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi áðan.

Virðulegi forseti. Þetta mál fjallar um breytingu á upplýsingalögum. Eins og allir vita eru upplýsingalögin afar mikilvæg í stjórnsýslu og stjórnkerfi okkar og hafa margítrekað sannað gildi sitt. Því skiptir máli að þessi lög séu í stakk búin til að mæta því markmiði sem þau eiga að ná og þess vegna er áríðandi að stoppa í öll göt, taka fyrir allar efasemdir eins og andsvör beggja hv. þingmanna gáfu til kynna áðan.

Hér er um að ræða frumvarp sem leggur til að lögleidd verði ákvæði um endurnot opinberra upplýsinga. Frumvarpið er byggt á tilskipun Evrópusambandsins um endurnotkun opinberra upplýsinga þó að í því sé lagt til að gengið verði lengra í að þrengja gjaldtökuheimildir af upplýsingum og opinberum skrám og höfundarétti ríkisins á þessum upplýsingum en er í sjálfri tilskipuninni sem liggur að baki þess. Samkvæmt frumvarpinu verður stjórnvöldum skylt, með ýmsum takmörkunum þó, að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekin mál. Það eru stjórnvöld sem ákveða hvort gögn sem heimilt er að veita aðgang að séu sýnd eða af þeim veitt ljósrit eða afrit. Í þeim tilvikum sem stjórnvöld ljósrita eða afrita gögn og láta einkaaðila í té ber að taka gjald samkvæmt gjaldskrá sem hæstv. forsætisráðherra ákveður. Því vildi ég spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þessa gjaldskrá, sem komið er inn á í 4. mgr. 4. gr. frumvarpsins, og hvort það sé réttur skilningur að um sé að ræða gjaldskrá sem byggist á meginreglunni um þjónustugjald, þ.e. að ekki megi rukka hærra verð, sem er algert grundvallaratriði, en nemur þeim kostnaði sem hlýst af viðkomandi þjónustu, að gjaldið miðist einungis við að borgað sé fyrir þann kostnað sem kostar hina opinberu stofnun að láta upplýsingarnar í té, af því að hluti skilgreiningar á þjónustugjaldi er að ekki megi rukka hærra verð fyrir það en sem viðkomandi þjónusta kostar. Um þetta höfum við oft deilt í þinginu og þetta aðskilur t.d. þjónustugjald frá skatti.

Við tókumst t.d. á um það, eins og í þinginu í hittiðfyrra, sem laut að skráningargjöldum í Háskóla Íslands og raunar í öllum opinberu háskólunum, Kennaraháskólann, Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Þá var því haldið fram af stjórnarliðum að um væri að ræða þjónustugjald þrátt fyrir að komið hefði skýrt fram að gjaldið væri hærra en sem nam kostnaði við skráninguna beint, enda var sama gjaldið sett á sem skráningargjald í alla skólana. Við stjórnarandstæðingar margir héldum því fram að hér væri um að ræða tekjulið fyrir háskólana, nokkurs konar skólagjöld sem verið væri að koma á bakdyramegin í formi þjónustugjalda. Það væri í rauninni verið að blekkja og fara ranglega með út frá því. Þess vegna er þessi umræða mjög mikilvæg og því spyr ég hæstv. ráðherra að þessu.

Það var ljóst að okkar mati að ekki væri um þjónustugjald að ræða heldur upphæð sem ákveðin var í lögum og ætti miklu meira skylt við skatt, enda er sjálfsagt hæpið að setja lög sem tiltaka ákveðna upphæð ef þau eiga einungis að miðast við kostnaðinn af þjónustunni í mörgum ólíkum stofnunum. Því langaði mig að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hér sé um að ræða þjónustugjald eða getur hann ákveðið hærra verð í þessari gjaldskrá en þjónustan kostar? Það þarf að vera alveg ljóst undir hvað þetta fellur.

Önnur spurning sem ég vildi beina til forsætisráðherra varðar 6. gr. og lýtur að sérleyfissamningum. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Sérleyfissamningar um endurnot opinberra upplýsinga sem ekki uppfylla skilyrði 2. mgr. 28. gr. skulu renna út eigi síðar en 31. desember 2008.“

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra hvort honum sé kunnugt um að slíkir sérleyfissamningar séu til staðar nú þegar. Hefur hið opinbera gert þess háttar sérleyfissamninga um nýtingu á opinberum upplýsingum, sem samkvæmt þessari grein þyrfti þá væntanlega að rifta með einhverjum hætti og endurtaka? Ég spyr hæstv. ráðherra út í þetta.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar er margt jákvætt í þessu frumvarpi, í grunninn er þetta mikil lagabót að mínu mati og okkar samfylkingarmanna og var mjög athyglisvert að fást við þetta mál í allsherjarnefnd í fyrra. Þetta er flókið mál og mikið að vöxtum, að mörgu þarf að gæta og að mörgu þarf að hyggja til að koma í veg fyrir að einhver mistök eigi sér stað við lagasetninguna eins og getið var um áðan, að opinberri stofnun sé skylt að veita aðgang að upplýsingum sem þurfa eðli málsins samkvæmt að fara leynt, eins og t.d. hjá Náttúrufræðistofnun Ísland þar sem augljóslega er um að ræða upplýsingar um viðkvæma stofna dýra og plantna sem þurfa að fara leynt, t.d. viðverustaðir, stofnstærðir o.fl. Það er mjög mikilvægt að opinberar stofnanir sem safna slíkum upplýsingum geti gert það án þess að hægt sé að gera kröfu um að þær verði gerðar opinberar, jafnframt því sem það verður líka að vera á hreinu að engin stofnun geti skákað í skjóli slíkra undantekninga og komið í veg fyrir aðgang að opinberum upplýsingum sem annars væri mjög eðlilegt að veita fullan aðgang að eins og um er að ræða í langflestum tilfellum. Endurnot opinberra upplýsinga geta átt sér stað og munu eiga sér stað ef rétt er á málum haldið og takist okkur að ljúka þessari lagagerð sem tókst ekki í fyrra enda er málið, eins og ég sagði, mikið að vöxtum og flókið og mál sem þarf að vanda mjög vel til.

Ég ítreka óskir um að Páll Hreinsson komi aftur fyrir allsherjarnefnd og geri glögga grein fyrir mörgum hinum flóknari og yfirgripsmeiri þáttum þessa lagafrumvarps. Hefur sá mæti lögmaður oft komið fyrir nefndina í ýmsum málum og er sérstaklega glöggur og snjall í því að varpa ljósi á hin flóknustu mál þar sem vel þarf að takast til. Vona ég því að málið nái fram að ganga núna þar sem við höfum enn þá betri tíma til að ljúka gerð þess og stoppa upp í það sem við ræddum um áðan. Ég hef beint nokkrum spurningum til hæstv. forsætisráðherra, annars vegar um þjónustugjald og skatt og hins vegar um sérleyfissamningana, en vil ítreka að lokum að ég tek undir meginmarkmið frumvarpsins sem er að sjálfsögðu að það er jákvætt og mikilvægt að auka aðgang almennings að opinberum upplýsingum. Við eigum að stuðla að gegnsæju, opnu stjórnkerfi þar sem stjórnvaldið er opnað og fært nær hinum almenna borgara, ég tek eindregið undir þá lagagerð. Þetta er, eins og margar aðrar tilskipanir sem við höfum fengið frá Evrópusambandinu, mjög til bóta fyrir hinn almenna borgara í landinu og fagna ég því málinu sem slíku og vona að það nái fram að ganga í endanlegri mynd í þinginu síðar í vetur.