133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[16:04]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, það eru sjálfstæðar ákvarðanir hverju sinni. En við tilefni og tækifæri sem þessi þegar verið er að mæla fyrir breytingu á lögum sem skipta miklu máli í vísinda- og tæknistarfi í landinu er mjög gott að kalla eftir framtíðarsýn æðstu ráðamanna landsins í þeim málaflokkum.

Nú er hæstv. forsætisráðherra að mæla öðru sinni fyrir þessu máli sem um margt er ágætt og það er hægt að taka undir mörg markmið þess. Við förum í gegnum það í umræðunni hér í dag og í fagnefndinni síðar. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort það sé ekki ástæða til að varpa ljósi á það hver helstu fyrirheit hæstv. forsætisráðherra eru til að koma pólitískt til móts við þetta, til að fylgja eftir þessari framtíðarsýn og gæða hana einhverju inntaki. Það var stórpólitísk ákvörðun á sínum tíma að ráðast í stórbrotnar virkjana- og stóriðjuframkvæmdir. Það er stórpólitísk atvinnumálaákvörðun ef það á að gera eitthvað annað eins og hér er gefið til kynna að eigi að gera.

Þess vegna spyr ég hæstv. forsætisráðherra, eins og hæstv. forsætisráðherra, forveri hans, var spurður við þessa umræðu í fyrra, hvort t.d. kæmi til greina að beita ívilnunum ýmiss konar til að efla nýsköpunarfyrirtækin og eins hvort það standi til að endurskoða sveltistefnuna í háskólunum. Það er einhvern veginn verið að þvinga þá til að taka upp skólagjöld til að standa undir starfsemi sinni og auknum nemendafjölda, það er ekkert verið að gera til að fjárfesta og efla rannsóknastarf háskólanna, nákvæmlega ekki neitt.

Þetta eru hinar stóru pólitísku línur sem hæstv. forsætisráðherra, öllum mönnum fremur, á að leggja og þess vegna er kallað eftir þeim hér í dag þó svo að hann sé ekki nauðbeygður til að draga þær fram einungis út af þessu frumvarpi. Tækifærið er til staðar.