133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Vísinda- og tækniráð.

295. mál
[16:08]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þingmaðurinn er ekki í allsherjarnefnd, þingmaðurinn situr í menntamálanefnd. Það er auðvitað sjálfsagt að verða við bón hæstv. forsætisráðherra um að kalla málið inn til menntamálanefndar þannig að hún geti gert sér grein fyrir því með hvaða hætti sú stefnumótun sem hér er áskilin á að hafa áhrif á úthlutanir fagráðanna sem skipuleggja, taka við umsóknum og fara í gegnum þær, annars vegar þeirrar nefndar sem nú á að kalla nýsköpunarnefnd og hins vegar vísindanefndarinnar. Þetta eru spurningar sem fræðimenn og rannsakendur, bæði innan skólanna og í fyrirtækjunum um allt land, fara fram á að fá svör við.

Hins vegar hlýtur, forseti, að vera hægt að ætlast til þess að þegar flutningsmenn stjórnarfrumvarpa koma hér, hæstv. ráðherrar, geti þeir svarað út úr um setningar sem standa í þeirra eigin greinargerðum. Nú geri ég mér grein fyrir því að hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde skrifar sennilega ekki greinargerðirnar með frumvörpum sínum en hann flytur þau, hann tekur á þeim ábyrgð og hann á að geta svarað spurningum sem varða beinlínis setningar sem standa í greinargerðunum. Hér er ekki verið að fara út fyrir efnið, hér er ekki verið að spyrja um aukaatriði eða mál sem snerta ekki það efni sem hér er rætt. Hér stendur á þriðju síðu ofarlega, þegar þriðjungi er lokið af þeim texta sem þar er í þessu frumvarpi, í athugasemdum við lagafrumvarp þetta, með leyfi forseta:

„Sú stefna“ — þ.e. sú stefna sem ráðinu er ætlað að móta — „þarf að taka til þátta sem fram til þessa hafa ekki verið á dagskrá ráðsins.“

Ég spyr, maður auðvitað undir þeirri meðalgreind sem viðgengst í forsætisráðuneytinu, en þó maður sem kjörinn er á Alþingi Íslendinga til þess að spyrja slíkra spurninga: Hvaða þættir eru það?