133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[16:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Náttúruminjasafn Íslands. Frumvarp þetta er nær óbreytt frá frumvarpi sem var lagt fram á síðasta þingi. Með því er lagt til að sett verði sérlög um Náttúruminjasafn Íslands sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða í samræmi við ákvæði safnalaga, nr. 106/2001. Í 5. gr. safnalaga er kveðið á um að höfuðsöfn skuli stofna með lögum þar sem nánar er kveðið á um starfsemi þeirra og í 5. mgr. 5. gr. laganna er Náttúruminjasafn Íslands tilgreint sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða.

Í bráðabirgðaákvæðum safnalaga segir að ákvæði 5. mgr. 5. gr. komi ekki til framkvæmda fyrr en sett hafa verið sérlög um safnið í samræmi við ákvæði laganna og með frumvarpi þessu er lagt til að þetta fyrrgreinda ákvæði safnalaga verði uppfyllt. Lögum samkvæmt eru þrjú höfuðsöfn, Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands — lagabálkar til um þau — og síðan Náttúruminjasafn Íslands. Fram til þessa hefur ekki verið til sérlagabálkur um Náttúruminjasafnið og er verið að koma til móts við það.

Í almennum athugasemdum frumvarpsins er forsaga Náttúruminjasafns Íslands rakin frá árinu 1884 auk þess sem greint er frá húsnæðismálum safnsins og tíðum flutningum þess. Þá er greint frá tengslum safnsins við Náttúrufræðistofnun Íslands og þeim kaflaskilum sem urðu 1990 þegar umhverfisráðuneytið var stofnað og Náttúrufræðistofnun Íslands færð frá menntamálaráðuneyti til hins nýja ráðuneytis. Jafnframt er því lýst að Náttúrugripasafnið hafi tilheyrt umhverfisráðuneytinu frá stofnun þess árið 1990 en að á árinu 2001 hafi orðið þáttaskil þegar Alþingi setti fyrrnefnd safnalög. Samkvæmt 2. gr. þeirra laga fer menntamálaráðherra með yfirstjórn málefna minja- og listasafna. Til minjasafna teljast menningarminjasöfn og náttúruminjasöfn.

Í frumvarpinu er hlutverk Náttúruminjasafns Íslands skilgreint og gerð grein fyrir skipulagi þess og yfirstjórn. Auk almenns hlutverks safnsins sem höfuðsafns er gert ráð fyrir því að safnið hafi jafnframt rannsóknarhlutverk eins og önnur höfuðsöfn samkvæmt safnalögum þó svo að Náttúrufræðistofnun Íslands verði vísindalegur og faglegur bakhjarl safnsins og annist að verulegu leyti rannsóknarskyldu þess, samanber lög nr. 60/1992. Frumvarpið kveður á um að þessar stofnanir skuli hafa náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra samkvæmt 3. gr. frumvarpsins.

Samkvæmt núgildandi safnalögum hefur Náttúruminjasafn Íslands, eitt höfuðsafna, ekki rannsóknarskyldu, en þar sem öðrum höfuðsöfnum, samkvæmt lögunum, er ætlað slíkt hlutverk er í frumvarpinu jafnframt lögð til breyting á safnalögum til að samræmis sé gætt milli höfuðsafnanna að þessu leyti til.

Menn hafa oft spurt, og mig minnir að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafi farið inn á einmitt þetta atriði hér við umræðuna síðasta vor: Er safnið að fara í miklar grunnrannsóknir o.s.frv.? Svo er ekki. Ég vil sérstaklega fara yfir þetta atriði til að ítreka hvað um er að ræða. Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaráðs safna, ICOM, á safni sem lögfest hefur verið á Íslandi með safnalögunum frá 2001 eru söfn stofnanir sem eru opnar almenningi og hafa það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögur hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar.

Rannsóknir safna beinast því oft að því að setja rannsóknarefnin í eitthvert samhengi sem nýta má síðan til að kynna og miðla upplýsingum til almennings og menntastofnana. Náttúruminjasafni Íslands er ekki ætlað að stunda frumrannsóknir eða grunnrannsóknir á náttúru landsins. Til þess eru aðrar vísinda- og rannsóknastofnanir, eins og Náttúrufræðistofnun Íslands en hér má líka tiltaka Veðurstofu Íslands, Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands svo einhverjar séu nefndar.

Náttúruminjasafni Íslands er ætlað að fjalla um náttúru landsins frá öllum hliðum þannig að umfjöllunarefni safnsins nær langt út fyrir þá hluta íslenskrar náttúru sem Náttúrufræðistofnun Íslands er ætlað að stunda, þ.e. undirstöðurannsóknirnar í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði. Náttúruminjasafninu er einnig ætlað að miðla þekkingu um veðurfræði, grasafræði og jarðfræði.

Rannsóknarefnin sem taka þarf út frá safnafræðilegu sjónarmiði eru því ótalmörg og falla ekki undir grunnrannsóknir eða undirstöðurannsóknir. Söfn nýta sér oftast hins vegar niðurstöðu annarra og setja í nýtt samhengi eða nálgast rannsóknarefnið út frá öðru sjónarhorni en sjálfar rannsóknastofnanirnar sem fyrst og fremst stunda grunnrannsóknir. Þetta er í samræmi við þá skilgreiningu Alþjóðaráðs safna sem við höfum m.a. tekið upp í safnalögum.

Ég vil einnig geta sérstakrar breytingar frá því að við ræddum þetta sama mál hér í vor. Hún er í 5. gr. en þar segir, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra skipar forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands, safnstjóra, til fimm ára í senn.“ — Þetta er óbreytt. En síðan kemur:

„Skal safnstjóri hafa háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins.“ — Í stað „og“ var áður „eða“. Hann skal uppfylla þær kröfur sem þarna eru settar fram og er m.a. tekið tillit til athugasemda sem bárust nefndinni og líka þeirra athugasemda sem hv. þingmenn settu fram við 1. umr. Í greinargerðinni segir líka m.a., með leyfi forseta:

„Lagt er til að forstöðumaður hafi háskólamenntun og staðgóða þekkingu á starfsemi safnsins. Um sambærileg starfsgengisskilyrði forstöðumanns er að ræða og í lögum um Þjóðminjasafn Íslands og Listasafn Íslands.“

Meðal annars er litið til þeirra atriða sem þar standa þannig að þetta er nokkurn veginn sambærilegt á milli höfuðsafnanna þriggja að meginstefnu til.

Ég tel, hæstv. forseti, að ég hafi rakið meginefni frumvarpsins um Náttúruminjasafn Íslands. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að umræðurnar hér munu örugglega markast af því, eins og þær gerðu síðasta vor, hvar þetta safn eigi að vera. Við erum ekki að taka ákvörðun um það. Við erum heldur ekki að taka ákvörðun um sjálft húsnæðið, eins og staðan er með þessu frumvarpi, heldur erum við að marka ramma sem okkur ber í rauninni lögum samkvæmt, þ.e. samkvæmt safnalögunum. Það er ekki til lagabálkur um Náttúruminjasafnið. Síðan getum við farið í frekari uppbyggingu safnsins.

Ég ítreka það sem ég sagði í vor. Við erum að ræða hér um það að koma á fót Náttúruminjasafninu. Við erum að ræða um að ráða forstöðumann og starfsmenn til að þeir geti farið í umfangsmikla stefnumörkun um það hvernig Náttúruminjasafn Íslands eigi að vera uppbyggt og í kjölfarið á slíkri stefnumótun getum við farið að taka ákvarðanir, frekari stórar ákvarðanir í þessu samhengi, þ.e. um uppbyggingu glæsilegs Náttúruminjasafns Íslands.