133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:03]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Markmiðið með frumvarpi til laga um Náttúruminjasafn Íslands er gott og göfugt eins og kom fram í máli hæstv. menntamálaráðherra. Hins vegar er hin afleita staða sem uppi hefur verið í safnamálum okkar náttúruminja landsfræg og smánarblettur á safnasögu okkar eins og dæmin sanna. Það er nánast farsakennt hve illa hefur verið búið að þessum hlutum og vonandi verður þetta frumvarp og hin nýja stofnun til þess að breyta þar um enda er fyrirkomulag á varðveislu náttúruminja okkar til mikils ósóma svo vægt sé til orða tekið. Það kemur reyndar fram í frumvarpinu með mjög kurteislegu orðalagi, með leyfi forseta:

„Geymsluaðstöðu mun vera ábótavant.“

Það vekur miklar efasemdir um gildi þessa frumvarps — og ég vil spyrja hæstv. menntamálaráðherra um það — að í umsögn um frumvarpið frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis segir, með leyfi forseta:

„Samkvæmt upplýsingum menntamálaráðuneytisins liggja engar áætlanir fyrir um uppbyggingu og rekstur Náttúruminjasafnsins. Frumvarpið veitir takmarkaðar upplýsingar sem hægt er að byggja kostnaðarmat á. Þó kemur fram að ráðinn verður forstöðumaður ...“

Síðar segir, með leyfi forseta:

„Vegna þess að engar áætlanir liggja fyrir um hið nýja safn gefur fjármálaráðuneytið sér einfaldar forsendur við gerð þessa kostnaðarmats til að gefa grófar hugmyndir um hugsanlegan kostnað.“

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið heppilegra ef eitthvað meira lægi að baki frumvarpinu en þetta þannig að hægt væri að gera áætlanir og sjá fyrir hina pólitísku framtíð við uppbyggingu og rekstur safnsins en ekki að skila auðu eins og fjárlagaskrifstofan? Lesa má mikla gagnrýni út úr nokkuð hörðu orðalagi hennar. Hefði ekki hæstv. ráðherra þurft að standa örlítið betur að þessu máli?