133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel einmitt frekar að við eigum að standa að þessu eins og við erum að ræða hér í dag. Það þarf að fara fyrst í það hver sé stefna okkar gagnvart Náttúruminjasafninu. Við munum ekki liggja á liði okkar í menntamálaráðuneytinu varðandi það hverjar eru hugmyndir okkar um uppbyggingu safnsins sem slíks. Ég tel mikilvægt að við komum á fót safninu, að við ráðum forstöðumann og forstöðumaðurinn, að sjálfsögðu í samráði við síðan náttúrufræðasamfélagið, við safnasamfélagið, móti stefnuna.

Ég tel ekki heppilegt að miðstýrð ákvörðun komi frá ráðuneyti menntamála þegar um er að ræða jafnstórt og viðamikið mál og Náttúruminjasafn Íslands. Ég tel heppilegra að við höfum samráð, mótum stefnuna. Hér er um rammalöggjöf að ræða. Ég vil sérstaklega undirstrika það. Hér er um rammalöggjöf að ræða. Við höfum reynt að halda þessu með svipuðum hætti og með Listasafnið og með Þjóðminjasafnið. Ég tel mikilvægt þegar þetta frumvarp verður samþykkt og ráðinn forstöðumaður að þá komi fleiri að þeirri stefnumótun því ólík viðhorf eru til þess hvaða leiðir við eigum að fara varðandi Náttúruminjasafnið. Ég sjálf tel heppilegt að reyna að tengja sem flestar náttúrufræðistofnanir, safnastofnanir við þetta, líka Veðurstofuna eins og við höfum verið að tala um og fleira til þess að byggja upp Náttúruminjasafn með áherslu einnig á raungreinaþáttinn og vísindaþáttinn til þess að þetta verði eitt öflugasta safn sem við getum komið upp hér á landi með þessa þætti í huga og til þess líka að efla skólakerfið.