133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:09]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega ósammála hv. þingmanni. Hér er einmitt um rammalöggjöf að ræða.

Ef við lesum hvað stendur nákvæmlega til að mynda í 2. gr. frumvarpsins þá stendur, með leyfi forseta:

„Hlutverk Náttúruminjasafns Íslands“ — hvert er hlutverkið? — „er að varpa ljósi á náttúru Íslands, náttúrusögu landsins, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd, auk þess að varpa ljósi á samspil manns og náttúru og á náttúru landsins í alþjóðlegu samhengi.“

Stefnan kemur fram í þessu plaggi. Síðan er það að sjálfsögðu ætlunin að vinna þetta áfram í samvinnu og samstarfi við nýja forstöðumann og safnaumhverfið í kringum náttúruminjar. Stefnan er alveg á hreinu. Stefnan er alveg á hreinu varðandi þetta og það mun verða mjög mikil uppbygging í náttúruminjum.

Hins vegar er ljóst að að óbreyttum lögum mun menntamálaráðuneytið ekki geta og ber ekki lögum samkvæmt ábyrgð á Náttúruminjasafninu eins og staðan er í dag þ.e. að óbreyttum lögum því að sá hluti er undir Náttúrufræðistofnun Íslands. Það er ætlunin að undirstrika mikilvægi Náttúruminjasafnsins sem eins af höfuðsöfnunum með því að keyra þetta frumvarp í gegn.

Ég vona að ég sjái fram á breiðan og víðtækan stuðning af hálfu stjórnarandstöðunnar í þessu máli og velti því fyrir mér í ljósi þessarar orðræðu hér áðan hvort stjórnarandstaðan ætli að stoppa þetta mál og koma í veg fyrir uppbyggingu á merkilegu og öflugu Náttúruminjasafni Íslands.