133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:32]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Mörður Árnason, það er a.m.k. ljóst að hann er skýr í tali en engu að síður finnst mér vera óljóst hvort hann hyggst styðja málið. Það kemur fram í máli hans sem og máli hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar sem kom hérna upp í andsvar áðan, að menn eru bara ekkert skýrir í afstöðu sinni hvort þeir vilji samþykkja lög um Náttúruminjasafn Íslands og stuðla þannig að framgangi þess að Náttúruminjasafn verði byggt hér á landi, farið í stefnumörkun o.s.frv.

Hv. þingmaður varpaði til mín spurningu varðandi þá skýrslu eða þann hóp sem ég boðaði að ætti að fara yfir geymslumál safna. Ég vænti þess að á næstu dögum fái ég þá skýrslu í hendur, ég vonast til þess.

Síðan varðandi hitt atriðið, þann leiða atburð sem átti sér stað með gripi Náttúrufræðistofnunar sem voru í vörslu tiltekins aðila úti í bæ, þá mun ég að sjálfsögðu óska eftir þeirri greinargerð sem ég geri ráð fyrir að umhverfisráðherra biðji um, sem alla jafna er gert þegar svona óhöpp verða, að ráðherrar biðja um greinargerð varðandi stöðu málsins, hvernig atvik voru o.s.frv. Ég mun að sjálfsögðu óska eftir slíkri greinargerð til að vinna inn í þá heildarendurskoðun sem tengist geymslumálum safna.