133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[17:37]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Samkvæmt þeim skilningi sem hæstv. menntamálaráðherra leggur í störf þingsins eru öll frumvörp þingsins rammalöggjafarfrumvörp nema þá helst fjárlögin. Það er fallegt að halda miklar ræður um náttúruminjasafnið, það hefur verið gert í sennilega heila öld, hver stjórnmálamaðurinn af öðrum, hver menntamálaráðherrann af öðrum.

Ekki skal standa á okkur að samþykkja almennileg lög um náttúruminjasafn ef það er víst að heilindi og vilji sé á bak við það frumvarp sem ráðherra flytur um þetta efni. Það er bara hreinlega óljóst. Það fylgir þessu frumvarpi ekkert af því sem á þarf að halda þegar þarf að framkvæma. Umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er kannski sá partur af frumvarpinu sem auðlesnastur er og skemmtilegast er að lesa fyrir þá sem hafa gaman af tölum því að engar aðrar tölur eru í frumvarpinu.

Ég vil að lokum benda hæstv. menntamálaráðherra afar kurteislega og afar ljúfmannlega og blíðlega á það, áður en hún setur á frekari ræður um Náttúruminjasafn Íslands og það frumvarp sem hún flytur nú öðru sinni, að lesa fyrst greinargerð fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um það verkefni sem ráðherrann telur að hún sé að ráðast í.