133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:26]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég treysti því að aðrir sem ætla upp í andsvör ræði hversu þægilegt það verði fyrir túrista í Ameríkufluginu að lenda hér klukkan sex á morgnana með kerrurnar og rúlla sér í gegnum Náttúrugripasafnið áður en þeir fara heim á hótel í Reykjavík. Ég verð að segja, hv. þm. Hjálmar Árnason, að mér finnst þetta ekki mjög sannfærandi.

Það sem undrar mig, og er ástæðan fyrir því að ég kem upp til andsvars við ræðu hv. þingmanns, er að menn virðast einhvern veginn hafa fest sig akkúrat í þeim förum, því hljólfari sem ég nefndi áðan, sem er ekki í huga neinna sem eru að hugsa um þessi mál, þ.e. gömlu náttúrugripasöfnunum þar sem eru endalausir eggjabakkar, eins og ég nefndi, með ótrúlega svipuðum eggjum því að öll eru þau jú keimlík þótt stærðin og liturinn sé eitthvað aðeins mismunandi.

Mig langar aðeins til að segja að í þeirri ágætu skýrslu sem ég lyfti nú upp í þriðja sinn var mjög myndarlega og með framsýnum hætti tekið á því hvað sýna ætti í náttúruhúsinu og hvernig skipuleggja ætti það. Þar er ein lykilsetning sem varðar samspil Náttúrufræðistofnunar annars vegar og náttúruminjasafns hins vegar, sem er þessi, með leyfi forseta:

„Það er almenn reynsla og skoðun safnamanna að rannsóknir og fræðileg tegundasöfn þurfi að vera til stuðnings sýningasöfnum á sviði náttúrufræða annars einangrast þau og staðna. Það er því mjög áríðandi að áframhaldandi tengsl séu tryggð milli Náttúrufræðistofnunar og sýningarstarfsemi væntanlegs náttúrusafns þótt fjárhagur og rekstur sýningarstarfseminnar verði aðskilinn frá fjárhag rannsóknarstofnunarinnar.“

Þetta er það leiðarljós sem þar var lagt upp með. Svo koma menn núna, á árinu 2006, og eru búnir að finna upp þetta sama hjól og það er þannig í öllu öðru tilliti líka.