133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

Náttúruminjasafn Íslands.

281. mál
[18:35]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég áttaði mig nú ekki alveg á öllu hvað hv. þingmaður var að fara. En fyrst vil ég aðeins víkja að því sem ég nefndi í síðasta andsvari. Það mun vera svo, ef ég hef skilið það rétt, að Háskóli Íslands mun hafa fengið vegna Náttúrufræðistofnunar húsnæði og eigi húsnæðið á Hlemmi. Hlemmur er líklega með dýrustu lóðum á höfuðborgarsvæðinu.

Ég var bara að velta því upp og hef ekkert ákvörðunarvald, en einmitt í svona umræðu hélt ég, hv. þingmaður, að við ættum að nálgast umræðuna opið og velta upp öllum möguleikum. Sé það rétt að Náttúrufræðistofnun eigi Hlemm að hluta til, þessa verðmætu lóð og mannvirki á verðmætri lóð, þá finnst mér auðvitað rakið að selja það til þess að ná í fljótlegt fjármagn til að koma upp metnaðarfullu náttúrufræðihúsi, hvar svo sem það yrði staðsett. Það er ein leið, ég velti henni aðeins upp og kann vel að hafa rangt fyrir mér. Ég velti þessu bara upp sem möguleika.

Sé þetta hins vegar fær leið og í ljósi þess hve Hlemmur og það svæði er verðmætt og eftirsótt tel ég að mikil verðmæti fengjust fyrir það. Það er það sem ég er að reyna að draga fram. Þá væri ekki svo mikið sem vantaði upp á.

Þetta er bara ein leið sem ég er að velta upp. Ef af því verður, sem vonandi verður fljótt, að við sjáum náttúrufræðihús og sjáum starfsemi Náttúrufræðistofnunar og Náttúruminjasafns komast undir almennilegt þak, þá er að sjálfsögðu ekki þörf fyrir þá starfsemi á Hlemmi, enda eins óhentug og hugsað getur. Hygg ég að hv. þm. Álfheiður Ingadóttir geti staðfest það.

Hvað varðar stefnu Framsóknarflokksins að flytja Náttúrufræðistofnun til Keflavíkur, þá er það eins og ég nefndi áðan, við eigum að velta upp öllum möguleikum. Að fara á Keflavíkurflugvöll (Forseti hringir.) hefur bara verið velt upp sem einni af mörgum hugmyndum. Ég vona að hv. þingmaður þoli að heyra slíkar (Forseti hringir.) hugmyndir.