133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[19:14]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Hér er mikilvægt mál um upplýsingar og samráð í fyrirtækjum. Ég lít kannski ekki á það með þeim hætti, ef þetta frumvarp verður að lögum sem ég tel allar líkur á, að þá verði hægt að krefja einhverra upplýsinga. Ég lít frekar svo á að þetta verði liður í því að búa til liðsanda þannig að atvinnurekendur átti sig á því að kannski er réttara að veita sem mestar upplýsingar, hafa samráð og samvinnu við starfskrafta hjá þeim þannig að það geti verið ávinningur, ekki bara fyrir starfsmenn heldur einnig fyrir stjórnendur og eigendur fyrirtækja, að veita sem mestar upplýsingar til þess að liðsandi myndist og ákveðinn kraftur innan fyrirtækisins. Það verða alltaf einhverjar undankomuleiðir ef menn vilja leyna upplýsingum en ég tel einmitt að þessi lagasmíð miði að því að búa til anda þess að það borgi sig að vinna saman og í liði til að fyrirtækið nái virkilegum árangri.

Ég ræddi í andsvari við hæstv. ráðherra um að atvinnurekendur virðast að einhverju leyti þráast við að innleiða tilskipun nr. 158 frá ILO varðandi það að veita starfsfólki einhvern rökstuðning fyrir uppsögn. Ég er ekki viss um að það sé til hagsbóta að þráast við. Það að allt sé á huldu hver ástæðan er fyrir uppsögn er ekki góð leið til að búa til jákvæðan starfsanda innan fyrirtækis. Jákvæður starfsandi innan fyrirtækis skiptir verulega miklu máli hvað varðar árangur fyrirtækisins.

Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta séu lágmarksreglur. Í 6. gr. segir einmitt að það sé heimilt að útvíkka þær nánar í kjarasamningum. Mér finnst það skipta miklu máli í umræðu um þessi mál að þetta verði kannski vettvangur til samráðs og samvinnu þar sem atvinnurekendur og launþegar komi sér saman um hvernig upplýsingagjöf skuli vera og um hvað skuli leita upplýsinga. Frá mínum bæjardyrum séð ætti að vera hagur beggja að upplýsingagjöfin væri sem greiðust. Þannig myndast liðsandi innan fyrirtækja, þ.e. ef sem flest er uppi á borðinu.