133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[19:21]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svörin. Það er ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra tekur undir ýmislegt sem ég ræddi um varðandi atvinnulýðræði og skort á því hér á landi samanborið við það sem gerist hjá öðrum þjóðum. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi löggjöf er lítið skref í þeim áfanga. Þess vegna er mikilvægt að hún gagnist og bæði launþegar og atvinnurekendur nýti sér þau ákvæði eins og hægt er.

En hæstv. ráðherra svaraði ekki öllum spurningum sem ég beindi til hans. Í fyrsta lagi varðandi fjölda, hve mörg fyrirtæki féllu undir þessa tölu, miðað við 100 starfsmenn, miðað við 50 starfsmenn og miðað við 20 starfsmenn. Það er mjög mikilvægt að fá þær upplýsingar. Séu þær eru ekki fyrir hendi þá óska ég eftir því að ráðherrann gangi í að fá þær upplýsingar þannig að við vitum það þegar við fjöllum um málið í félagsmálanefnd.

Í annan stað sér maður að ágreiningurinn hefur verið það mikill í þessu máli að ráðherra hefur falið Rannsóknasetri vinnuréttar- og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst að semja þetta frumvarp líkt og er kannski verið að skoða hitt ágreiningsmálið, þ.e. ILO-samþykkt nr. 158.

En ég spyr ráðherrann: Er ASÍ sátt við frumvarpið sem hér liggur fyrir? Var fyrst og fremst tekið mið af sjónarmiðum atvinnurekenda í þessu frumvarpi? Að hve miklu leyti var tekið undir sjónarmið ASÍ? Ég held að ASÍ hafi viljað fara þá leið að miða við 20 starfsmenn en hér er miðað við 100 starfsmenn. Ég get ekki séð að mikið tillit hafi verið tekið til sjónarmiða ASÍ við meðferð þessa máls.