133. löggjafarþing — 25. fundur,  13. nóv. 2006.

upplýsingar og samráð í fyrirtækjum.

231. mál
[19:24]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra komi áðurnefndum upplýsingum til nefndarinnar og ekki bara að því er varðar fyrirtæki með 100 starfsmenn og fleiri og 50 starfsmenn og fleiri. Ég vildi líka fá fram, og bið ráðherrann að taka eftir því, hvað þetta mundi ná til margra fyrirtækja ef miðað væri við að minnsta kosti 20 starfsmenn eða fleiri.

Við munum komast að því við meðferð félagsmálanefndar á þessu máli hvort enn sé mikill ágreiningur um það og hvort það hafi fyrst og fremst verið sjónarmið atvinnurekenda sem hafi þarna orðið ofan á, sem ég óttast mjög að hafi verið. En auðvitað komumst við að því við meðferð málsins í félagsmálanefnd.

Ég saknaði þess í ræðu ráðherrans áðan að hann fjallaði lítið um áhyggjur mínar af því að fyrirtækin hefðu alls konar undankomuleiðir frá upplýsingaskyldunni sem þó er kveðið á um í 4. gr., miðað við hvað mér finnast ákvæði frumvarpsins og greinargerðarinnar laus í reipunum. Ég hef af því verulegar áhyggjur. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji að ákvæðin í þessu frumvarpi haldi að því er varðar það að tryggja að atvinnurekendur veiti fulltrúum starfsmanna þær upplýsingar sem kveðið er á um í 4. gr. frumvarpsins.

Það er auðvitað lágmark að það sé tryggt þannig að þessi löggjöf skili sér, virðulegi forseti, til að bæta starfsumhverfi og atvinnuöryggi launafólks fyrst og fremst, sem þó er meiningin með þessu frumvarpi. Ef það gerir það ekki er mikilvægt að félagsmálanefnd fari yfir það og vinni það verk sjálfstætt án afskipta frá atvinnurekendum, ef hún er svo laus í reipunum þessi löggjöf að (Forseti hringir.) að hún gagnist ekki launafólki. En það er megintilgangurinn með þessu frumvarpi.